22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (3305)

156. mál, bannmálið

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. þm. N.- Ísf. (S. St.) þykist vist hafa náð sjer niðri þarna, af því að jeg er nú dauður. Af því að hann notaði sjer það, verð jeg að taka eitt dæmi til að sýna öfugstreymið í röksemdum hans. Hann sagði, að siðferðisins vegna yrði að hafa háan toll á áfengi, þótt losað væri um lagahöftin á innflutningi þess. En þó hjelt hann því fram, að samfara háum tolli hlyti smyglun að eiga sjer stað, sem hann, eins og rjett er, telur stórt siðferðisbrot. Jeg fæ ekki sjeð samræmið hjer, þegar hann ætlar að bæta siðferðið með því að koma á öðru skipulagi, sem hann þó viðurkennir sjálfur að hafa muni í för með sjer siðferðisbrot, sem eru mjög líks eðlis og bannlagabrotin.