04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

33. mál, tollalög

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki neitað því, að mjer finst frv. ekki hafa tekið miklum bótum í hv. Ed. Jeg hygg, að tollur á brensluspíritus komi allilla niður. Eins og vjer vitum, er brensluspíritus einkum notaður af fátækara fólki, svo að það yrði sjerstaklega að bera þær byrðar, sem tollurinn hefði í för með sjer.

Tilgangurinn með frv. þessu er í raun og veru að koma í veg fyrir, að menn drekki suðuspíritus. En hjer hefði mátt fara aðra leið, sem Siglfirðingar hafa farið, og komið hefir að mjög góðu haldi, að því er sagt er, nefnilega selja hann að eins eftir seðlum. En sakir þess, að illa hlýðir, að brugðið sje fæti fyrir tekjufrv. af hálfu stjórnarinnar, eins og nú stendur á, þá ætla jeg ekki að koma fram með breytingartillögu við frv., þótt jeg verði að telja, að hjer sje lagður á mjög athugaverður tollur, enda má vera, að hið háa þing sjái leið til þess að bæta úr á annan hátt.