22.07.1919
Efri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (3315)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Kristinn Daníelsson:

Það dylst engum, að hjer er í raun og veru stórmál á ferðinni. — Hjer er að ræða um bætur á ábúðarlöggjöfinni, er staðið hefir langan tíma, og þurfa þær vandlegan undirbúning, ef þær eiga að uppfylla kröfur tímans.

Jeg skil vel vilja flm. (S. F.) á því, að ráða bætur á lögum þessum, og hefir hann tekið á því, sem helst þarf athugana við, en það er rjettur leiguliða.

Jeg er sammála honum um það, að leiguliðaábúð þurfi að tryggja, því trú mín er sú, að sjálfsábúð útrými henni aldrei, og því nauðsynlegt að stuðla til þess, að hún geti orðið sæmileg.

En þess er ekki von, að einum manni hafi tekist að ráða bætur á þessu til hlítar, og nefndin hefði þurft að athuga þetta betur.

Jeg hefi athugað nokkuð breytingar þær, sem hjer er farið fram á, og skal í fáum orðum benda á það, sem jeg hefi rekið augun í, sem ýmist eru gallar á frv., eða þarf nákvæmari fyrirmæli um.

Það eru þá fyrst fyrirmæli 2. gr., þar sem landeiganda er gert að skyldu, þegar hann byggir jörð sína, að láta fylgja henni „öll hús, sem nauðsynleg eru við ábúð á henni.“

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði nákvæmlega um ákvæði þetta í gær og benti á aðalgallana, og er jeg honum samdóma í því efni. —. Jeg hygg, að erfitt sje að ákveða, hver hús sjeu „nauðsynleg“. Þar er engu fastákveðnu hugtaki til að dreifa. Ákveðin hús geta verið einum leiguliða nauðsynleg, en öðrum til þyngsla.

Hins vegar verður að hafa einhver ákvæði um hús, en það þarf að ganga betur frá þeim, því með þessu gæti rjettur landeiganda orðið fyrir borð borinn.

Í 3. gr. er sagt, að nái leiguliði ekki samkomulagi við landsdrottin um það, hvert gagn jörðinni megi verða að jarðarbót, sem ekki er áskilin í byggingarbrjefi, en honum er heimilt að gera eða láta gera, sje rjett, að leiguliði „fái“ 2 óvilhalla menn til þess að meta það.

Jeg hygg, að þetta sje ekki næg trygging fyrir landsdrottin, sjerstaklega þar sem ætlast er til, að leiguliði fái fult endurgjald fyrir jarðarbótina að lokum, sbr. 6. gr. frv. Mjer þætti því betra, að þess yrði krafist, að mennirnir yrðu dómkvaddir.

Að vísu er samskonar ákvæði sem þetta í 20. gr. ábúðarlaganna frá 1884, en þar er þó sá munur á, að eftir þeim lögum fær leiguliði ekki fult endurgjald fyrir jarðarbætur sinar, heldur að eins tólffalda hækkun eftirgjaldsins, eða þaðan af minna.

Hvað 4. gr. frv. viðvíkur, get jeg látið mjer nægja að skírskota til ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.) í gær.

Jeg get ekki neitað því, að vafasamt er, hvort sanngjarnt er að láta landsdrottin einan bæta þær skemdir, er þar eru taldar, í öllum tilfellum.

Um 5. gr. þarf ekki að tala. — Það órjettlæti, sem í henni felst, stendur til að bætt verði með brtt. landbúnaðarnefndar, sem í raun og veru slær stryki yfir greinina. — Sala kúgilda hefir verið heimil, og sje jeg ekkert á móti því, að svo sje, ef samkomulag næst milli landsdrottins og leiguliða um það, en hitt sje jeg ekki, hvers vegna innstæðukúgildi ættu fremur að innleysast með jarðabótum og húsum en hverju öðru fjemæti.

Í 6. gr. er m. a. sagt, að meti úttektarmenn á þá leið, að jörðin hafi hækkað í verði fyrir verk fráfaranda, skuli landsdrottinn greiða honum þá verðhækkun að fullu.

Mjer finst órjettlæti koma fram í því, að borgunin skuli eiga að fara fram eftir mati, sem oft eru af handahófi; væri rjettast að greiða eftir sanngjörnum reikningi.

En hitt get jeg ekki heldur felt mig við, að það sje engu máli látið skifta, hversu lengi leiguliði hefir sjálfur notið jarðarbótanna, hvort heldur 1 ár, eða ef til vill 20—30 ár.

Þá stendur í niðurlagi greinarinnar, að landsdrottinn geti hækkað landskuld jarðar með 5% af fje því, sem hann greiði fyrir aðgerðir leiguliða. Þetta er ósanngjarnt, því oft getur staðið svo á, að hann þurfi að taka lán í banka til þeirrar greiðslu, og mætti því ekki minna vera en hann fengi útlánsvexti, eins og þeir eru á hverjum tíma.

Þetta eru að eins fáar athugasemdir. Jeg er velviljaður málinu og vil, að það fái sem bestan undirbúning. Óska, að nefndin leggi meiri vinnu í það en gert hefir verið. Hjer er stungið á kýli, sem ekki er vanþörf á að hreyfa við. Mun greiða atkv. með því, að því verði vísað til 3. umr., og vil sýna því og flm. þess (S. F.) allan sóma.