22.07.1919
Efri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) fór nokkrum orðum um frv. þetta í gær, og ætla jeg því að byrja með því að svara honum.

Hann byrjaði ræðu sína á því, að í frv. þessu væri gengið nærri helgi eignarrjettarins, en rök færði hann engin fyrir þeirri staðhæfingu sinni, og verð jeg því að álíta hana sleggjudóm.

Frv. gengur þvert á móti út á að tryggja þann eignarrjett, sem helgastur er, rjett verkamannsins til launanna. — En það er satt, að frv. er bygt á öðrum skilningi en þeim, sem almennur er, að því er snertir eignarrjett til verðhækkunar á landi.

Verðhækkun á landi á sjer stað á þrennan hátt:

1) vegna aðgerða þess, er þar býr, og þá verðhækkun tel jeg að rjettu lagi eign ábúanda;

2) fyrir framkvæmdir hins opinbera, t. d. vegalagningar o. fl., og þá verðhækkun tel jeg eign hins opinbera;

3) vegna samflutnings fólks á ákveðna staði, og þá verðhækkun tel jeg einnig eign þjóðfjelagsins.

Undir núverandi þjóðfjelagsskipun hafa einstaklingar sópað til sín þessum 3 tegundum verðhækkunar, en ekki með eignarrjetti, heldur löghelguðum ójöfnuði. —

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) vildi halda því fram, að kúgildafækkun hefði í för með sjer afturför í ræktun. Virðist hann hafa bygt á því, að ekkert komi í staðinn. En svo sem kunnugt, voru kúgildi flest þegar landbúnaðurinn var í mestri niðurlægingu, en fer nú fækkandi eftir því, sem landbúnaðurinn dafnar, og gengur þetta því í öfuga átt við það, sem hv. þm. (M. T.) hræðist að verða muni.

Hv. þm. (M. T.) mintist á, að hann gæti ekki skilið orðin í niðurlagi 6. gr., og tók sem dæmi af því leiguliða, sem bætt hefði tún um 1/3, þannig, að það gæfi af sjer 150 hesta af töðu í stað 100, og virtist mjer vaka fyrir þm. (M. T.), að sú verðhækkun á jörðinni ætti að falla í skaut landeiganda. Jeg lít svo á, að leiguliða beri slík hækkun með rjettu.

Þá þótti hv. þm. (M. T.) það óheppilegt, að landeiganda væri gert að lagaskyldu að eiga öll hús á jörðinni, en hins vegar væri það nær lagi, að hann ætti áhöfn jarðarinnar.

Hans búskaparhugsjón virðist því vera sú, að landsdrottinn eigi lausafje og jörð, en leiguliði húsin. Þetta getur verið gott fyrir ríka kaupstaðarbúa, sem vilja eiga jarðir í sveit. En ekki tel jeg líklegt, að bændur hallist að því fyrirkomulagi.

Þá skal jeg snúa mjer að hv. 2. þm. G.-K. (K. D.).

Hann kvað frv. ekki hafa verið athugað nægilega í nefndinni. En mörg stutt nál. koma fram á þinginu, og er það engin sönnun fyrir því, að mál þau, er ræðir um í þeim, sjeu ónógt athuguð.

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um húsin í þetta sinn. Menn hafa hugsað sjer margar leiðir til að tryggja almenningi í sveitum viðunandi húsakynni. En jeg hygg, að eina leiðin, sem kemur að haldi, sje sú, sem farin er í þessu frv. Hv. þm. (K. D.) mintist á ákvæði 3. gr. um, að leiguliði skuli fá 2 óvilhalla menn til að áætla um hækkun eftirgjalds vegna jarðarbóta. Þetta er tekið úr núgildandi ábúðarlögum. En nefndinni er það ekki fast í hendi, og mætti vel breyta því á þann veg, að dómkvaddir menn skuli meta.

Efalaust tel jeg það, að hver eigi að bera skaða af skemdum á eigin eign, sem engum er um að kenna.

Þá hefir þeirri spurningu verið beint til nefndarinnar, hví leiguliðum eigi ekki að vera leyfilegt að leysa til sín innstæðukúgildi með peningum, eins og með húsa- eða jarðarbótum. Svo er litið á kúgildin, sem þau sjeu nokkurskonar fasteign. Sjeu þau innleyst, þarf því einhverskonar fasteign að koma á móti, svo jörðin rýrni ekki að verði.

Þá er það atriðið í 6. gr., sem margir ræðumanna hafa hnotið um, að landsdrottinn greiði fráfarandi leiguliða verðhækkun jarðarinnar að fullu. Menn virðast hræddir um, að matið verði leiguliðunum í vil. Jeg sje enga ástæðu til að hræðast það. Mjer virðast þvert á móti meiri líkur til, að hið gagnstæða yrði ofan á. Hingað til hefir það að minsta kosti verið svo, að verk leiguliða hafi verið metin alt of lágt. Annars ætti áhættan að vera jöfn báðum megin, og getur ekki talist mikil, þar sem svo tryggilega er um búið, að mati úttektarmanna má vísa til yfirmatsnefndar.

Þótt frv. verði felt — en við því er hægt að búast, eftir umr. að dæma — lít jeg ekki svo á, að það sje þar með dautt. Frv. mun lifa þótt það deyi; það mun lifa og ryðja sjer til rúms, samkvæmt þeim krafti, sem sannleikur og rjettlæti altaf hafa.