04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

33. mál, tollalög

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg þarf ekki að segja margt, úr því að brtt. á þgskj. 227 hefir verið tekin aftur, og tilgangslaust að endurtaka það, sem jeg sagði áður um brtt. á þgskj. 236.

Um tóbakstollinn er sömuleiðis tilgangslaust að deila, því sú brtt. er dauðadæmd.

Háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) lagði áherslu á það, að síðari liður brtt. sinnar mundi gefa miklar tekjur, ef hann yrði samþyktur, sennilega um 80 þús. kr. Þetta kann vel að vera. Jeg gæti meira að segja trúað, að svo mörgum matvælategundum mætti prjóna við hann, að hann gæfi tvennar 80 þús. En það út af fyrir sig er engin sönnun fyrir rjettmæti brtt. Það var misskilningur hjá hv. þm. (B. St.), að nefndin hefði verið á móti þessum lið einungis af ótta við að hrekja frv. aftur til Ed. Þar var aðallega átt við brtt. á þgskj. 227, en ekki þessa. Annars tjáir ekki um þetta að deila. Jeg býst við, að nefndin hviki ekki frá skoðun sinni, og afstaða deildarinnar til frv. mun koma fram við atkvæðagreiðsluna.