22.07.1919
Efri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (3320)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Magnús Kristjánsson:

Það gleður mig að heyra þá yfirlýsingu hv. þm. Ísaf. (M. T.), að það sje tilætlun hans, að frv. nái fram að ganga. Mjer er þetta því meira fagnaðarefni, þar sem mjer virtust undirtektir hans við 1. umr. málsins ekki gefa miklar vonir um stuðning hans. Er það miklu virðingarverðari stefna, sem hann nú hefir upp tekið. Það væri mjög ómannlegt af þinginu að játa þörfina á breytingum á ábúðarlöggjöfinni og gera tilraunir til breytinga á hverju þingi, en treysta sjer svo aldrei til að leiða neitt í framkvæmd. Jeg geri ráð fyrir, að þeir, sem fundið hafa galla á frv., eins og það nú liggur fyrir, komi við 3. umr. fram með brtt., sem nemi burtu agnúana af því. Sú framkoma ein er sæmandi. Hitt er ekki á okkar valdi, hvernig málinu reiðir af í hv. Nd.

Æskilegast væri, að mínu áliti, að allar jarðir, aðrar en þjóðjarðir, kæmust sem fyrst í sjálfsábúð, en þess verður að líkindum nokkuð langt að bíða, ef löggjafarvaldið sjer ekki fært að stuðla að því á einhvern hátt. Ástandið, sem nú er, er óviðunandi. Úr því þarf að bæta, að fjöldi manna býr á annara eign svo að kalla rjettlausir. Þá kröfu er ekki hægt að gera, að þeir húsi leigujörð sína svo viðunandi sje og siðuðum mönnum samboðið, því þeir geta ekki búist við neinu verulegu endurgjaldi fyrir starf sitt. Peningunum væri því að mestu kastað í sjóinn. Í þessu frv. er gerð góð tilraun til að ráða bót á ástandinu, og við þá tilraun held jeg að vel megi una nú fyrst um sinn.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) áleit æskilegast, að leiguliðar ættu öll jarðarhús; þetta er alveg gagnstætt minni skoðun. Með því móti yrði að tryggja ábúandanum ekki að eins lífstíðarábúð, heldur og allri hans ætt, meðan nokkur af ættstofninum væri á lífi. Þetta er að mínu áliti svo mikil breyting, að vart mun framkvæmanleg. — Mjer finst ekki ástæða til að fara lengra út í þetta mál að sinni, en verð að líta svo á, að mikill skaði væri að því, ef málið yrði drepið. Jeg treysti því, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) og hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) komi með þær brtt., sem þeim þykir þurfa, við 3. umr. málsins.