25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (3323)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Magnús Torfason:

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) fór ekki langt út í frv., að deildin fjekk ekki að vita, hvort hann áliti frv. til bóta yfirleitt, eða hvort sum atriði þess væru það mikið til bóta, þó önnur atriði væri ef til vill óheppileg, að kostirnir væru samt yfirgnæfandi. Jeg bjóst við að fá gleggri skilgreiningu á áliti stjórnarinnar um þetta frv., er gerbreytir allri aðstöðu leiguliða til landsdrottins, heldur en orðið er.

Á þinginu 1917 sá landbúnaðarnefnd Nd. sjer ekki fært að leggja það til, að frv. það, um breytingar á ábúðarlögunum, er þá var til umr., yrði gert að lögum. Eins og hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) tók fram, var málinu vísað til stjórnarinnar, og var við því búist, að það þyrfti rækilegan undirbúning, einnig annarsstaðar frá. Í hinni rökstuddu dagskrá nefndarinnar er samþ. var, er skorað á stjórnina að stuðla að því, að Búnaðarfjelag Íslands og stjórnir búnaðarsambandanna rannsaki með aðstoð viturra manna, er til fást í hverjum landsfjórðungi, hverjar breytingar sjeu nauðsynlegar á ábúðarlögunum og hvernig þær skuli ákveðnar í einstökum atriðum. Svo langt var þá gengið í kröfum Nd. um undirbúning þessa máls.

Nú hygg jeg, eftir að hafa heyrt skýrslu hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) um aðgerðir stjórnarinnar í málinu, að við stöndum ekki nær því að ráða til lykta breytingum á ábúðarlöggjöfinni heldur en 1917, og það því síður, sem annríki er nú afskaplega mikið. Jeg álít því rjettast að fara sömu leið, sem hv. Nd. fór 1917, að vísa málinu til stjórnarinnar.

Það mun hafa þótt á vanta rökstuddu dagskrána 1917, að stjórninni var ekki veitt fje til að framkvæma slíka rannsókn, sem þar er gert ráð fyrir. Jeg gæti því fallist á, að í fjárlögunum ætti að veita stjórninni einhverja fjárupphæð til umráða í þessu skyni.

Jeg hygg, að hugmynd þeirri, er vakað hefir fyrir hv. flm. (S. F.), verði gerður mestur og bestur greiði með því, að deildin feli stjórninni málið. Og þar sem hann hefir nú komið hugsunum sínum í frumvarpsform, gæti stjórnin tekið fult tillit til þess, ef hún lítur svo á, að taka mætti nokkurn hluta af landbúnaðarlöggjöfinni og endurskoða hann, af því að ekki mætti bíða fyrirhugaðrar allsherjarendurskoðunar á þessum lagabálki. Og því fremur ætti þetta að geta orðið að ráði, þar sem breyting verður mjög bráðlega á stjórninni, og fyrir þann nýja kraft, sem taka á við atvinnumálunum, er þetta mál ágætt viðfangsefni að spreyta sig á.

Samkvæmt þessu, er jeg nú hefi sagt, vil jeg leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Með skírskotun til rökstuddrar dagskrár, er neðri deild Alþingis samþykti í einu hljóði á síðasta reglulega Alþingi, og í fullu trausti þess, að stjórnin láti ekki fyrir farast að leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi tillögur um breytingar á lögum um bygging, ábúð og úttekt jarða, 12. jan. 1884, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.