18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í C-deild Alþingistíðinda. (3329)

91. mál, ullarmat

Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Það eru tvær aðalbreytingar, sem þetta frv. leggur til að gerðar sjeu á núgildandi ullarmatslögum.

Fyrri breytingin er sú, að öll ull sje metin, auk vorullar, einnig haustull, en hún sje ekki flokkuð. Þetta hefir nefndinni komið saman um að sje sjálfsagt. Enda bendir greinargerð frv. til þess, að svo sje um þá ull, sem verða á verslunarvara, ef dæma skal eftir því, hvernig ýmsar verslanir hafa afgreitt þær sendingar fyrirfarandi.

En svo er önnur aðalbreyting í frv., sem nefndin hefir klofnað um. Erum við þar 4 nefndarmenn í meiri hluta, en að eins einn í minni hl., en það er annar flutningsm. frv. Breytingin er sú, að í stað þess, að nú eru 4 yfirmatsmenn, verði einn yfirullarmatsmaður skipaður fyrir land alt. Meiri hl. getur ekki sjeð, að þessi breyting geta orðið til bóta, heldur það gagnstæða, að hún leiði miklu fremur til skemda á lögunum. Meiri hl. getur ekki sjeð, að einn maður muni geta haft eftirlit með matinu að neinu ráði. Ullarmatið fer fram á 2–3 vikum, eða í lengsta lagi á mánaðartíma. Á þeim tíma á þessi eini maður að hafa gætur á því, að ullarmatsmenn víðs vegar á landinu vandi matið og komi á samræmi í því. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi eini maður fari um land alt á 3 árum, eða með öðrum orðum, komi einu sinni á hverjum þrem árum á hvern ullarmóttökustað á landinu. Í stað þess, að nú geta þessir 4 yfirullarmatsmenn komið á hvern ullarmóttökustað á hverju vori, þá gæti þessi eini maður að eins komið á 1/3 hluta þeirra árlega. Það væru því tvö ár, sem liðu milli þess, að hann gæti fundið undirmatsmennina á hverjum stað og rækt embætti sitt. Og jeg hygg, að flm. hafi ætlað honum nægilegt verkefni, þegar litið er til allra þeirra ferðalaga, sem þessum eina manni eru ætluð. Hann á t. d. á einu vori að fara um Norðurland og vera á öllum þeim stöðum, sem ull er flutt út. Nú skyldi vera ís fyrir Norðurlandi og skipaferðir mjög ógreiðar. Þá er það alls ekki þægilegt fyrir hann að finna alla ullarmatsmennina og koma á alla ullarmóttökustaði. Nei, þau ferðalög gætu orðið honum torsótt, og sennilega allkostnaðarsöm fyrir ríkissjóðinn, væri hann úr öðrum landsfjórðungi og yrði að kaupa fargögn eða flutninga.

Þetta atriði hefir því orðið til þess, að nefndin klofnaði, og það er ekkert tiltökumál, þótt hv. flm. frv. (S. S.), sem er í nefndinni, vildi ekki ganga svo í berhögg við það, að falla frá þessu meginatriði.

Þá er það ein breyting, sem er allveruleg í frv. frá lögunum, sem öll nefndin er einhuga um, en það er að geymsla ullarinnar sje undir umsjá matsmanna þangað til ullin er flutt út. Þessi breyting virðist alveg sjálfsögð.

Sem sagt lítur meiri hl. nefndarinnar svo á, að þótt svo sje, að ullarmatið sje á sumum stöðum má ske í ólestri, þá sjeu engar líkur til, að það batni, nema síður verði, ef yfirullarmatsmaðurinn verður einn. En sje svo, að frv. sje fram komið af því, að einhver ullarmatsmaður hafi ekki reynst vaxinn starfinu, þá sýnist liggja nær, að skifta um menn, heldur en að breyta lögunum þannig, til að koma í veg fyrir þetta. Enda er engin sönnun fyrir því, að þessi eini maður ræki starf sitt betur en hver þessara fjögra, sem nú eru, eður væri því betur vaxinn.

Þá hefir meiri hl. nefndarinnar lagt til, að á hverja ullarsendingu sje sett bókstafamerki fyrir hvern landsfjórðung, fyrir það svæði, er hver ullarmatsmaður ræður yfir. Þetta álítur meiri hl. að muni verða til þess, að auka samkepni um vöruvöndun og mat hjá matsmönnum, og enn fremur, að enginn landsfjórðungur njóti þá annars eða gjaldi, sem nú getur vel verið, og það því fremur, sem það er mjög erfitt að fá algert samræmi í matið um land alt. Merkið er því hvöt til að vanda vöruna vel, ástæða fyrir matsmennina til að vanda matið sjerstaklega vel, og það miklu fremur en nú er. Annars er mjer mikil forvitni á að heyra frá þeirri mönnum í deildinni, sem vanir eru mati og sölu á ull á erlendum markaði, hvernig þeir líta á þetta ákvæði, því að það er allverulegt atriði að okkar áliti.

Þá getur meiri hl. ekki treyst sjer til að ákveða fasta fjárhæð til ferðakostnaðar yfirmatsmannanna. Hann er nú ákveðinn 200 kr. En meiri hl. nefndarinnar virðist ekki hægt að ákveða hann, eins og nú er ástatt, því að ef matsmennirnir ættu að rækja starf sitt samviskusamlega, þá eru þeir svo lengi á ferðalögum, að vart verður ætlast til, að þeim nægi 200 kr. til ferðakostnaðar. Þetta varð að ágreiningsefni milli nefndarhlutanna. Að vísu mun minni hl. ekki hafa ákveðið neina fasta upphæð, en hann hefir gefið í skyn, að hann sje óánægður með það ákvæði meiri hl., að ferðakostnaðurinn skuli greiddur „eftir sanngjörnum reikningi.“

Þetta eru þá helstu breytingarnar, sem meiri hl. leggur til. Aðalbreytingarnar stafa af því, að flutningsmenn hafa gert ráð fyrir einum yfirmatsmanni, en meiri hl. vill hafa þá 4, eins og verið hefir.

Að svo mæltu hefi jeg ekki fleira að vekja athygli á. Meiri hl. landbúnaðarnefndar leggur því til, að brtt. á þgskj. 379 verði samþ., og eins og jeg hefi tekið fram, verða þær að skoðast til verulegra bóta á frv.