18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (3331)

91. mál, ullarmat

Pjetur Jónsson:

Jeg teldi illa farið, ef málinu væri eytt út af þeim klofningi, sem komið hefir upp í hv. landbúnaðarnefnd. Og mjer virðist, að hvort sem frv. verður samþ. með brtt. meiri hl. eða óbreytt, þá sje það til bóta frá því sem er.

Með því að hafa að eins einn yfirullarmatsmann fengist að líkindum meira samræmi í ullarmatið. En þá veltur á hinu, að maðurinn yrði vel valinn og starfi sínu vaxinn. Yrði hann að ferðast allan þann tíma ársins, sem ull væri flutt út, því hann yrði að líta eftir allri ull, hvaðan sem væri af landinu, og það mundi hann geta einn saman.

Þeir tveir matsmenn, sem Bretar sendu hingað í fyrra, höfðu meira en nóg að gera, að líta eftir ull þeirri, sem út var flutt, og yrði yfirmatsmaðurinn að sjálfsögðu að hafa aðstoðarmann. Það kom í ljós í fyrrasumar, að ullarmatinu var ákaflega áfátt sumstaðar. Var leitt til þess að vita, að sumt, sem talið var í 1. flokki upphaflega, varð ekki nema með því lakara í 2. flokki. Og þó voru ekki svo fá dæmi til slíks. En jeg held, að með því að skerpa betur eftirlitið með þessum fjórum matsmönnum (S. S.: Hver gerir það?), þá gæti ullarmatinu mikið farið fram. Í byrjun var einn maður settur yfir hina fjóra, og fór hann um landið til að líta eftir matinu. Það var Sigurgeir Einarsson. En hann vann bæði of stutt árlega og ekki nema 2 ár í alt, svo hann kom ekki á nægu samræmi í matinu.

Nefndin ætti að athuga, hvort þessir fjórir menn gætu ekki á einhvern hátt haft sambönd þannig hvor við annan, að þeir gætu borið sig saman og lagt sameiginlegan grundvöll undir matið, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu um kjötmat.

Jeg held, að till. meiri hl. um merkin sje góð, og geri ráð fyrir, að þau gætu orðið til að auka samkepni á milli yfirskoðunarmanna og hjeraða.

Kaupmenn, t. d. í Ameríku, hafa nú síðan matið kom furðað sig á því, hve t. d. ull nr. 1 er misjöfn eftir því, úr hvaða landshluta hún er, og talið vöruna svo misjafna, að ekki væri óhætt að reiða sig á vörumerkið: Ísland No. 1. Flokkunin yrði áreiðanlega betri og ábyggilegri, ef merki væru fyrir hvern fjóðung. Á þann hátt gæti knúðst fram, að kaupmenn færu að gera greinarmun á sunnlenskri ull og norðlenskri, eins og áður var venja, eftir því, sem gæðamunur reynist. Og merkið knýr áreiðanlega fram eðlilegan greinarmun. (H. K.: Engum hefir dottið þetta í hug með fiskinn). Jú, spánverskir fiskikaupmenn taka mikið tillit til þess, hvaðan af landinu fiskurinn er. Þeir eru orðnir svo kunnugir hjer, að þeir vita, hvaðan fiskurinn er bestur og hvaðan verstur.

Mjer finst verulegt atriði frv. standa óbreytt, þó að brtt. meiri hl. verði samþ. En eitt vil jeg benda hv. meiri hl. á. Borgunin fyrir ullarmatið er alt of lág. Hana verður að hækka. Jeg álít, að matsmenn verði að hafa sæmilegt kaup, meðan þeir eru á ferðalögum, og þeir verða að ferðast mikið, þótt á einstaka stað megi trúa undirmatsmönnunum. En þá verður að borga þeim dagpeninga auk ferðakostnaðar, sem því svarar, hvað meira kostar að halda sig á ferðalagi en heima hjá sjer.