18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (3333)

91. mál, ullarmat

Matthías Ólafsson:

Jeg get ekki skilið þá staðhæfingu sumra hv. þm., að betra sje að fella frv. en að samþykkja það með brtt., sem fram eru komnar. Jeg fæ ekki annað sjeð en að bót sje að brtt. Það er að vísu ekki ætlast til eftir brtt., að haustull sje metin, en það þarf að meta hana, þarf að flokka hana, eins og hverja aðra vöru. Um það, hvort betra sje að hafa einn yfirmatsmann eða fleiri, held jeg, að ekki ætti að vera vafi. Jeg get skilið, að um það gætu verið skiftar skoðanir. Ef mennirnir eru fjórir, þá þarf hver ekki að þekkja nema sinn fjórðung. Hvað það snertir, að vilja láta flokka eftir fjórðungum, þá sje jeg ekki, að hjá því verði komist. Við verðum að láta útlendinga trúa því, að mat okkar sje einhvers virði. — Þeir segja nú sem svo, að svo lengi sem þeir sjái að eins ullina flokkaða í 1., 2., og 3. flokk, þá geti þeir gefið jafnt fyrir þá alla. Þeir vita ekki, hvaðan ullin er, en norðlensk ull í 2. flokki er jafngróð sunnlenskri ull í 1. flokki. Matið er einskis virði meðan ekki er flokkað eftir fjórðungum. —

Þá talaði hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um, að hjer ætti jöfnuður að ráða. Jeg ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum. Hvernig getur hv. þm. (G. Sv.) haldið því fram, að vörur, sem eru misjafnar að gæðum, eigi að seljast sama verði? Það er ekkert annað en svik við kaupandann, ekki annað en blekking, að selja verri vöruna sem þá betri. Það er sama, hvort varan er ljeleg vegna illrar meðferðar eða af náttúrunnar völdum; ljeleg vara verður ekki eins góð og góð vara með lagaboði, og að selja þær jafnt er ekkert annað en blekking. Menn kunna að nefna fiskinn í þessu sambandi. Hann er ekki flokkaður eftir landshlutum, en þó er það á allra vitorði, að hann er misgóður; t. d. er enginn fiskur jafngóður og vestfirskur. En kaupendurnir þekkja þetta; þeir vita, hvaða fiskur er frá Vestfjörðum, og borga hann hærra. Það er ekki hægt að blekkja þá. Þrátt fyrir alt, sem gert hefir verið til að bæta verkun á sunnlenskum fiski, þá hefir ekki tekist að gera hann eins góðan. Það er ekki mönnunum að kenna; fiskurinn er verri í raun og veru, og eins er sennilega ástatt um ullina. Það er þess vegna nauðsynlegt að flokka hana eftir gæðum. Jeg segi ekki, að takmörkin, sem hjer eru tilgreind, sjeu rjett eða nákvæm. Takmörkin verða vitanlega að setjast af sjerfræðingum, en þó held jeg, að þessi skifting í fjórðunga sje betri en ekki.