18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (3335)

91. mál, ullarmat

Pjetur Ottesen:

Þegar þetta frv. fyrst kom fram, þá var jeg strax þeirrar skoðunar, að í rjetta átt væri stefnt, með því að setja einn yfirmatsmann yfir alt landið. Jeg áleit, að með því væri trygt, að meira samræmi kæmist á í ullarmati en reynslan hefir sýnt, að nú á sjer stað. En hitt aftur á móti, að þessi yfirmatsmaður kæmi að eins 3. hvert ár, eins og gert var ráð fyrir í frv., á þá staði, þar sem ullarmat fer fram, það álít jeg að væri ekki fullnægjandi trygging. En er jeg hafði hugsað betur þetta atriði, þá þóttist jeg sjá, að hann gæti oftar komið á ullarútflutningsstaðina en gert er ráð fyrir í frv. Jeg hefði jafnvel getað búist við, að hann gæti komið einu sinni á ári á flesta staðina. Jeg hefi hugsað mjer þetta þannig, að hann ferðaðist kringum landið í maímánuði, og hefði með sjer sýnishorn af ull, og að hann í þeirri ferð ætti tal við ullarmatsmenn úti um landið og leiðbeindi þeim. Svo færi hann aftur hringferð um ullartökutímann. Miðað við samgöngur eins og þær eru nú gæti hann komið á flesta ullartökustaðina á þann hátt, og þeim mun auðveldara væri þetta, er betur greiddist úr samgöngunum. Jeg verð því að líta svo á, að ekki sje mikið gerandi úr þeirri mótbáru, að yfirmatsmaðurinn geti ekki látið til sín taka, af því hann geti ekki ferðast nægilega um landið.

Það er að sjálfsögðu rjett, að ull er talsvert mismunandi að gæðum víðs vegar af landinu. En þetta er einmitt mjög misjafnt innan hvers sýslufjelags, þó ekki sje lengra farið. Þess vegna nær það engri átt, eins og meiri hl. nefndarinnar ætlast til, að ullin sje flokkuð eftir landsfjórðungum, í fyrsta lagi af því, að skiftingin er af handahófi, og svo er ekkert samræmi í ullargæðum í hverjum landsfjórðungi. Þó að norðlensk ull hafi á sjer betra álit og sje í hærra verði á markaðinum en önnur ull, þá er hún vafalaust misjöfn að gæðum líka. Það mun aðallega vera þingeyska ullin, sem komið hefir þessu orði á norðlensku ullina. Jeg hygg t. d., að ekki geti verið mikill munur á ull úr Húnavatnssýslu og úr dölunum í ofanverðri Borgarfjarðarsýslu. Fjárkynið er hið sama í báðum þessum landshlutum, og önnur skilyrði mjög svipuð, og ullin þar af leiðandi mjög lík. Enda hefir áður fyr verið flutt ull úr Borgarfirði norður á Borðeyri til útflutnings þaðan, og ekki orðið til að rýra álit norðlensku ullarinnar, að jeg held. Það er því mín skoðun, að það geti orðið gott samræmi í ullarmatinu, ef að er farið eins og ætlast er til í þessu frv. En að ætla sjer að fara að gera upp á milli, eins og meiri hl. nefndarinnar vill í brtt. sínum, nær engri átt. Jeg hefi átt tal um þetta við þann mann, sem fyrstur gerði tilraun til að bæta ullarverkunina nokkuð alment og kynnast erlendis, hvaða kröfur ullarverksmiðjurnar gerðu til verkunar á ullinni. Það er Sigurg. Einarsson. Hann hefir, eins og kunnugt er, ferðast til Ameríku og kynt sjer ullarmarkað þar, og auk þess starfað að ullarmati hjer innanlands um nokkur ár. Hann leggur mikið upp úr, að málinu sje komið í rjett horf, og telur einu leiðina til að koma samræmi á, að einn maður hafi á hendi yfirumsjón alls ullarmatsins, er leiðbeini síðan hinum matsmönnunum með flokkun á ullinni. En eins og þetta er framkvæmt nú, þá eru matsmennimir 4, enda hefir það alls ekki komið að tilætluðum notum. Þetta hefir valdið hinum mesta glundroða á matinu, þannig að sín aðferðin hefir verið notuð á hverjum staðnum. Af því hefir aftur leitt, að kaupendum erlendis hefir ekki fundist þetta næg trygging, og keypt ullina þannig, að þeir hafa jafnvel borgað 30–35% lægra fyrir ullina, af því þeir teljast ekki hafa næga tryggingu fyrir því, að ullin sje sú vara, sem vottorðin segja að hún sje. Af þessu geta menn nú sjeð, hvers virði ábyggilegt og samfelt mat á ullinni er.

Mjer þótti vænt um að heyra, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) var þeirrar skoðunar, að það mundi mest trygging í því, hvað það snerti að fá gott samræmi í matið, að hafa einn yfirmatsmann fyrir alt landið.

Þá hefir því verið haldið fram, að það að merkja ullina eftir landsfjórðungum mundi skapa samkepni milli landsfjórðunga í matinu. Jeg legg ekki mikið upp úr því. Jeg held fastlega, að hitt fyrirkomulagið sje miklu hyggilegra, að hafa einn yfirmatsmann fyrir alt landið, mann, sem hafi áhuga á starfinu og sje fær um að glæða áhuga undirmanna sinna á þessu starfi og gera þeim ljóst, hve mikla þýðingu það hefir að gæta vandvirkni í þessu starfi.

Þá talaði hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og hallaðist að því, að þessi greining á ullinni væri æskileg, því þá vissu kaupendur altaf, hvaðan ullin væri. En kaupendur vita þó altaf um seljanda og frá hvaða stað ullin er flutt út; það sýna matsvottorðin. Jeg held, að þetta ætti að geta verið alveg eins með ullina og fiskinn, sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mintist á; ekki er hann flokkaður eða merktur eftir því, hvaðan hann er fluttur út af landinu. Það er alveg víst, að þessi flokkunaraðferð eftir landsfjórðungum er engan veginn nauðsynleg, heldur þvert á móti hið gagnstæða, að samkepni nýtur sín engu síður, þó að sú aðferð sje ekki viðhöfð. (M. Ó.: Ullin er mest flutt út frá Rvík, þótt hún sje ekki úr nærliggjandi hjeruðum). Þó ullin hafi verið flutt út frá Reykjavík á stríðsárunum úr öðrum landsfjórðungum, þá liggja til þess alveg sjerstakar ástæður. Á venjulegum tímum mundi hún verða tekin á skip í hverju umdæmi fyrir sig.

Það er alveg rjett, sem hv. þm. V.- Sk. (G. Sv.) tók fram, að það er engin sönnun fyrir því, að öll ull úr einhverri sýslu sje söm að gæðum. Hún getur einmitt verið gagnólík. Jeg verð því að mæla eindregið móti þessari brtt. meiri hl. nefndarinnar. En jeg vil, ef frv. verður samþ., gera yfirmatsmanni að skyldu að koma á sem flesta ullartökustaði árlega, en þessu má breyta við 3. umr., ef til kemur.