18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (3338)

91. mál, ullarmat

Matthías Ólafsson:

Mín skoðun fellur víst ekki vel í geð hv. þm. Dala. (B. J.), sem segir, að öll ull sje jafngóð, og það sje því skröksaga ein, að norðlensk ull sje betri en önnur ull hjer. En hvað sem hann álítur um það mál, þá mun sú skoðun haldast framvegis hjá þeim, sem ullina kaupa, enda er það sannleikur, að hún er í eðli sínu bæði þelmeiri og betri. Og jeg geri ráð fyrir, að ullarkaupendur hafi meira vit á þessu en hv. þm. Dala. (B. J.). (B. J.: Það veit hv. þm. (M. Ó.) ekkert um. Hann hefir sjálfur ekkert vit á ull, frekar en á fiski).

Jeg verð að segja það, að mjer er ekki alveg sama, hvernig bændur fara með vöru sína; sjerstaklega er það mikils vert landsins vegna, að vel sje til hennar vandað.

Nú mundi svo fara, að ef 1 yfirmatsmaður væri um land alt, þá yrði hann að skipa bestu ullina úr sumum hjeruðunum í 2. flokk, ef hún væri verri að gæðum en annarsstaðar, þó aldrei nema hún væri eins vel verkuð. Því mundi verða kunnað mjög illa.

En væri ullin aftur á móti flokkuð í hverjum fjórðungi fyrir sig í 1., 2. og 3. flokk, þá mundi verða norðlensk ull nr. 1, vestfirsk ull nr. 1, o. s. frv., og þá auðvitað norðlensk ull nr. 1 borguð hæstu verði.

Þá kæmi það ekki til, að við svo að segja svikum inn á markaðinn lakari vöruna með því að telja hana til þess flokksins, sem betri er í raun og veru.

En ef talað er um nr. 1 af íslenskri ull yfir höfuð, þá getur hún verið úr hvaða hjeraði sem er. En sú ull á auðvitað ekki saman nema að nafninu, þó að kaupandinn verði að ganga út frá því, að nr. 1 sje alt jafngild vara.

Jeg skal fúslega viðurkenna það, að ull úr mínu hjeraði getur alls ekki jafnast á við norðlenska ull, og mjer er engin þægð í, að hún komist í sama verð, meðan hún er ekki jafngóð. En jeg hefi von um, að hún gæti orðið það, sjerstaklega með því að bæta fjárkynið.

Jeg þori að fullyrða, að ull á Vesturlandi sje hvergi eins góð og ull á Norðurlandi. Það mun því ekki leiða neitt gott af því, að láta sama manninn meta ullina alstaðar á landinu.

Væri það samviskusamur maður, þá yrði hann að fara með bestu ullina sumstaðar niður úr 1. flokki, því að hitt væri rangt, að smeygja lakari vörunni undir þann flokkinn, sem bestur er, og með því móti mundi almenn vöruvöndun og gæði aldrei nást.

Hefði þeim ráðum verið beitt með fiskinn, mundi hafa illa farið og umbótin ekki eins fljótt komist á.

En nú er svo komið, að sunnlenskur fiskur er kominn næstum í sama verð og vestfirskur.