18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í C-deild Alþingistíðinda. (3340)

91. mál, ullarmat

Frsm. minni ml. (Sigurður Sigurðsson):

Ullarmatsmál þetta hefir nú verið allrækilega rætt frá báðum hliðum. Og hjer virðist mega segja með öllum rjetti, að fullkomin vörn, ef ekki sókn, hafi verið af hendi þeirra, sem minni hl. fylgja að málum, og kann jeg þeim öllum þakkir fyrir það, sem þeir hafa lagt til málsins.

Af því að jeg stend einn uppi í minni hl. í nefndinni, vil jeg nú leyfa mjer að gera örlitlar athugasemdir við ræður nokkurra þeirra hv. þm., sem talað hafa.

Er þá fyrst á að minnast hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Hann mælti með þessum fjórðungsmerkjum, en einhver skaut því að honum, að slíkt tíðkaðist þó ekki, þegar um saltfisk er að ræða.

Svaraði hann því til, að þess gerðist ekki þörf, þar sem vestfirskur fiskur væri alment viðurkendur bestur og því tekinn fram yfir annan. En nú vil jeg benda hv. þm. á það, að því hefir verið haldið fram, að þingeysk ull væri betri en önnur ull hjer.

Eins og kunnugt er, sendu Þingeyingar Kristján heitinn Jónasson utan til að kynna sjer ullarverkun, og hafa þeir síðan lagt talsvert kapp á að vanda verkun ullarinnar.

Það mætti því segja, að þingeyska ullin að þessu leyti samsvaraði vestfirska fiskinum. Það ætti því ekki að þurfa nein fjórðungsmerki til þess að halda henni, eða norðlenskri ull, uppi. Hún lifir á sínum gamla orðstír, nema ef svo skyldi vera, að verkun hennar væri að hrapa. En það gefur að skilja, að ull, sem er betri en alment gerist, hún ryður sjer til rúms á markaðinum af sjálfu sjer.

Þá er hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Jeg er honum samdóma um það, að ekki þýði að samþ. brtt., heldur væri nær að fella alt saman, því brtt. miða að því, að gera frv. sem líkast lögunum um ullarmat, að efni og formi, að því einu undan skildu, að þær spilla lögunum að nokkru. Á jeg þar aðallega við fjórðungsmerkin.

Þá tók hv. þm. (G. Sv.) til samanburðar við þetta lögin um mat á saltkjöti. Þar eru matsmenn fimm. — En hjer er alt öðru máli að gegna. Kjöt er altaf kjöt. Það er að vísu misfeitt og vöðvarnir misþykkir. En það verður aldrei eins misjöfn vara að öðru leyti eins og ullin. Kemur það helst fram í því, að hún hefir oft ýmsa aðfengna galla. Hún getur verið sendin og leirug, eða þá skógdregin og flókin. En alt eru þetta aðfengnir gallar, sem vitanlega spilla ullinni og gera hana verri en ella.

Ullarmatið verður því í raun og veru margbrotnara og flóknara en mat á kjöti, og til þess að fá samræmi í það er nauðsynlegt, að skipaður sje til þess að eins einn hæfur maður.

Þá talaði háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) bæði margt og mikið. — Virtist hann hneykslast á þeim orðum mínum, að matið ætti aðallega að vera mat á verkun ullarinnar. En í raun og veru er það þó svo, bæði samkvæmt orðum og anda ullarmatslaganna og eðli málsins.

Hann vill, að mest áhersla sje lögð á eðlisgæði hennar, og vill hann, að sú ull verði í fyrsta flokki, sem best er á öllu landinu. En það mælir einmitt sterklega með þessu ákvæði í frv., að einn yfirmatsmaður sje fyrir land alt. Hann mundi kynnast því, hvar ull er best á landinu, og yrði það um leið hvöt fyrir aðra að bæta hana með kynbótum, að svo miklu leyti sem það væri auðið, og öðru fleira.

En hins vegar má telja víst, að þar, sem landslag og loftslag er svo mjög ólíkt sem í Þingeyjarsýslu, Jökuldal og víðar, og svo hjer á Suðurlandi, muni það reynast ókleift að bæta svo kynið, að ullin verði jafngóð í þessum hjeruðum.

Ullarmatið verður að vera svo gott, að óhætt sje að treysta því, en það verður aldrei, nema einn góður yfirullarmatsmaður sje hafður yfir öllu landinu. Gæti hann þá samræmt ullarmatið og sett matsmönnunum fastar reglur að fara eftir í þessu efni.

Hv. frsm. meiri hl. (St. St.) talaði um, að yfirullarmatsmennirnir ættu að halda fundi og bera sig saman um verkun og mat á ullinni. Þetta má vel vera að hægt sje. En mjer er spurn: Hver hefir þarna framkvæmdavaldið? Það hefir einnig ekki svo lítinn kostnað í för með sjer, að menn úr fjarlægum hjeruðum komi saman á einn stað til fundarhalda.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að vera að þrefa um þetta mál meira, enda verða menn að játa, að fremur hefir verið sókn en vörn af hálfu þeirra, er talað hafa máli minni hl. Vona jeg fastlega, að brtt. verði feldar.