18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í C-deild Alþingistíðinda. (3343)

91. mál, ullarmat

Bjarni Jónsson:

Það, sem jeg vildi sagt hafa, verður einskonar framhald af ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Jeg hefði getað skilið, að till. sem þessi, um fjórðungsmerkin, hefði getað komið fram í landi, þar sem hægt hefði verið að tala um margskonar fjárkyn. En þar sem það veit hvert mannsbarn, að íslenskt fjárkyn hefir haldist óblandað frá því á landnámstíð, þá má geta nærri, hvort mismunurinn sje orðinn svo mikill á ullargæðum, sem af er látið. Það sjá og allir, að ekki getur það fallið saman við pólitíska skiftingu landsins, hvernig ull vex á sauðum. — Hjer er mikið verið að ræða um ullargæði, eða með öðrum orðum, hvort svo mikill munur sje á lengd þelháranna í hinum ýmsu hjeruðum landsins, að þess gæti á ullarmarkaðinum, án tillits til verkunar ullarinnar. Menn þykjast vita, að með blöndun fjár í vissum sveitum landsins hafi ullin batnað, en menn vita ekkert um hina hluta landsins, er þeir vilja skifta niður. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það sje náttúrufræðileg fásinna að vera að tala um skiftingu landsins eftir ullargæðum. Ef ætti eftir nokkru að skifta, þá væri það eftir því, hvar væri heilara eða kaldara. Hafi sem sje ullin breyst nokkuð að ráði á íslensku fje, mun það vera af völdum náttúrunnar. Það er sem sje náttúrulögmál, að náttúran reynir að verja börn sín og gerir þeim fært að sigrast á öðrum þeim fjandsamlegri öflum. Þarf ekki annað en benda á, hversu útigangshestar eru miklu loðnari en þeir, er í húsum eru hafðir. Það gæti því hugsast, að eitthvað líkt hefði átt sjer stað hjer. En þá væru takmörkin sennilega um Öndverðarnes og Lónsheiði.

Þá lagði hv. frsm. meiri hl. (St. St.) áherslu á, að slík flokkun ullarinnar gæti aukið samkepnina með ullarmatsmönnunum. Það má vel vera, en spurningin er, hvort sú samkepni yrði til bóta. Það gæti sem sje vel komið fyrir, að ullarmatsmönnum sunnanlandsþætti sá sinn sómi, að hafa ekki minna af ull í fyrsta flokki heldur en ullarmatsmenn norðanlands eða austan. Verður því ekkert um það sagt, hvort þessi samkepni yrði til bóta í versluninni, eða til skaða.

Ástæðurnar fyrir þessari breytingu hv. meiri hl. sýna sig því að vera engar ástæður, nema ef þær skyldu vera þær, að þeir, sem betra þykjast eiga fjeð, vilji taka sig út úr og búa að sínu.