19.08.1919
Neðri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (3345)

91. mál, ullarmat

Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Jeg man því miður að eins örfá atriði frá umr. í gær, svo að hv. deild verður að fyrirgefa, þótt jeg láti ýmsu ósvarað.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) komst að þeirri kynlegu niðurstöðu, að hann vildi heldur, að frv. fjelli, en brtt. meiri hl. nefndarinnar næðu fram að ganga. — Þm. (G. Sv.) gætir þess víst ekki, að í frv. sjálfu eru þó þau nýju ákvæði, að mat fari fram á allri ull, sem til útflutnings er ætluð, svo á haustull sem vorull, og að ullin sje undir eftirliti ullarmatsmanna, meðan hún býður útflutnings; þetta tvent eru óneitanlega mikilsverð ákvæði, og að segja, að frv. ætti heldur að falla en að brtt. meiri hl. nefndarinnar komist að, er hrein fjarstæða, enda geta þær till. ekki talist til skemda á frv.

Þá var hv. 1. þm. Árn. (S. S.) mjög glaður yfir því, að fremur hefði verið sókn en vörn af hálfu minni hl. Slík gleðilæti eru fremur óvenjuleg hjer í þingsalnum. Það má vera, að hv. þm. (S. S.) hafi fundist þetta, og ekki óhugsandi, að það rætist í framkvæmdinni. En það er öllu heldur barnagaman en þroskaðra manna, að gleðjast yfir sókninni fyrirfram.

Sami hv. þm. (S. S.) talaði um, hver skipaði matsmönnum að bera sig saman. Auðvitað getur stjórnin það, og gerir, ef nauðsyn þykir. Til þess nægir ákvæði í reglugerð, en matsmennirnir geta borið sig saman með sýnishornum af ull. Þetta mundi ekki verða síður til að tryggja gott mat á ullinni, heldur en ef yfirskoðunarmaðurinn væri að eins einn yfir land alt.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mintist á, að slept væri ýmsum ullarsölustöðum úr frv., sem settir væru utan við lög og rjett. Jeg skaut því fram í gær, að þessu mætti breyta. Nefndin hafði farið hjer eftir lögunum án þess að athuga, hvort nýir útflutningsstaðir hefðu risið upp síðan á þessum slóðum, eða milli Víkur og Hornafjarðar. En hún mun taka þetta til athugunar til 3. umr. og sjá um, að ekkert bil verði milli endastöðva á umdæmum yfirullarmatsmanna.

Þá talaði sami hv. þm. (G. Sv.) um það, að laun yfirmatsmanna væru svo smánarleg, að engin von væri til, að nýtir menn tækjust starfið á hendur, en þau eru með öllu látin óhreyfð. Og ef frv. fellur, sitja þau við sama og nú er; að þessu leyti hefir nefndin því heldur ekki spilt lögunum. En jeg álít, að meiri hl. hafi bætt úr kjörunum með því að ákveða, að ferðakostnaðurinn skuli goldinn eftir reikningi, í stað þess að hann er nú bundinn við 200 kr. Það má gera ráð fyrir, að matsmennirnir verði ekki lengur en 3–4 vikur á yfirferðinni um umdæmi sitt árlega. Og 400 kr. kaup fyrir þennan tíma, auk ferðakostnaðar, verður að álíta sæmilegt. (G. Sv.: Þeir hafa meira fyrir en að eins að ferðast til útflutningsstöðvanna). Það er má ske ekki óhugsandi, en nefndinni er þó ekki ljóst, í hverju sú fyrirhöfn gæti legið, því að ekki hafa yfirmatsmennirnir þó neina skrifstofu, eða umfangsmikil brjefaviðskifti.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gerði mikið úr því ranglæti, sem merkin hefðu í för með sjer. Menn líta misjafnt á þetta atriði. Aðrir, sem jeg met mikils í þessum efnum, mæla eindregið með þeim. Nefndin álítur þetta mjög eðlilegt. Og í sambandi við það vil jeg geta þess, að hún hefir borið sig saman við verslunarfróða menn um það atriði, og hefir þeim komið saman um, að þetta fyrirkomulag mundi verða hvatning fyrir matsmennina og gleggra fyrir kaupendur.

Annars er nefndinni þetta ekki sjerstakt kappsmál, heldur hefir hún borið þessar brtt. fram af því, að hún álítur þær vera til mikilla bóta á frv.