22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (3348)

91. mál, ullarmat

Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Við aðra umr. þessa frv. komu fram bendingar frá einstökum hv. þm. um, að nauðsynlegar væru ýmsar smábreytingar á frv., eins og það lá þá fyrir. Jeg tók það fram þá, að nefndin myndi fúslega vilja gera þær breytingar á frv., er hún teldi til bóta. Þess vegna er það, sjerstaklega í tilefni af bendingu frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að nefndin hefir leyft sjer að bera fram þá brtt., meðal annara, á þgskj. 457, að suðurumdæmið nái lengra austur á bóginn, en þó ekki alla leið til Hornafjarðar, heldur að Jökulsá á Breiðamerkursandi. Suðurumdæmið nær þá frá Jökulsá á Breiðamerkursandi til Borgarness, og stækkar þá um svæðið frá Vík til Breiðamerkursands. Þetta stafar meðfram af því, að síðan ullarmatslögin voru samþ. hafa risið upp nýir útflutningsstaðir þar á viðbótarsvæðinu, sem sje Hvalsíki og við Ingólfshöfða. Finst nefndinni þetta sjálfsögð breyting.

Þá hafa líka komið fram óskir frá hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) og þm. Stranda. (M. P.) um, að norðurumdæmið næði vestur að Norðurfirði á Ströndum. Nefndinni fanst þessi breyting líka sanngjörn og eðlileg, og hefir tekið hana til greina.

Þetta eru þá aðalbreytingarnar á 2. gr., að þessi 2 umdæmi, norður- og suðurumdæmið, eru stækkuð. En af þeim leiða að nokkru leyti brtt. við 4. og. 7. gr. frv.

Um brtt. við 7. gr. er það að segja, að þegar umdæmunum hafði verið breytt, þurfti líka að gera launin mismunandi þar af leiðandi. Leggur því nefndin til, að yfirmatsmaðurinn fyrir Norðurland fái 600 kr. og yfirmatsmaðurinn fyrir Suðurland 500 kr. En laun hinna eru látin óhögguð, lækka ekki, þótt umdæmin minki.

Þá hefir líka komið fram bending um, að nauðsynlegt væri að taka fram í 4. gr., að yfirmatsmennirnir skuli ferðast um umdæmin árlega. Baunar er naumast hægt að misskilja fyrirmæli laganna um þetta atriði, en af því að ágreiningur hefir þó orðið um þetta atriði, hefir nefndin tekið það upp til frekari skýringar.

Þá er 1. málsliður 4. gr. endurtekning: „Ber þeim að finna alla ullarmatsmenn í landinu og líta eftir störfum þeirra.“ Hann vill nefndin fella burtu, þar sem hann er áður kominn inn í greinina.

Fleiri brtt. flytur nefndin ekki, og óskar, að frv. verði samþ. með þessum breytingum. En brtt. á þgskj. 442 tekur nefndin aftur.