22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í C-deild Alþingistíðinda. (3351)

91. mál, ullarmat

Einar Árnason:

Tvær síðustu ræðurnar, sem fluttar voru hjer í háttv. deild í þessu máli, gefa mjer tilefni til að segja fáein orð, vegna þess þekkingarskorts, sem kom fram í þeim, á málinu. Var þó furðulegt um háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), að hann skyldi ekki þekkja betur til ullargæða og ullarverkunar en raun er á, eftir ræðu hans að dæma. En meiri vorkunn er hv. 2. þm. Árn. (E. A.), þar sem hann er ekki kunnugur á þessu sviði.

Báðir misskilja hv. þm. alveg tilganginn með fjórðungsmerkin. Meiri hl. landbúnaðarnefndar vill halda áfram með þá tilhögun, að hafa yfirullarmatsmenn fjóra á landinu, og fjórðungsmerkin eiga að vera fyrir þá, hvern í sínu umdæmi, til þess að ósamræmi það, er verða kynni á mati milli þeirra innbyrðis, komi síður að sök við sölu ullarinnar, og enn fremur til þess að koma upp hollri samkepni milli þeirra um vöndun á ullinni. Bæði hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), sem báðir hafa mjög góða þekkingu á ullarsölu erlendis, hafa mælt með þessum fjórðungsmerkjum og talið þau mjög heppileg. Jeg hefi einnig átt tal við framkvæmdarstjóra Sambandsins, sem er allra manna kunnugastur sölu ullar á erlendum markaði, og hefir hann tjáð mjer, að slík merking sem þessi sje alveg bráðnauðsynleg. Þar sem nú það er engan veginn víst, að grundvallarreglan fyrir matinu sje sú sama hjá öllum yfirmatsmönnunum, þá er þessi merking því sjálfsagðari. Þá kemur það skýrt í ljós, hverjir yfirmatsmennirnir leysa starf sitt vel af hendi og hverjir ekki. Kaupendur ullarinnar kveða þar upp dóminn.

Að sjálfsögðu heldur meiri hl. landbúnaðarnefndarinnar því við till. sínar, en leggur á móti því, að rökstudda dagskráin frá hv. 2. þm. Árn. (E. A.) verði samþ.