22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í C-deild Alþingistíðinda. (3353)

91. mál, ullarmat

Einar Árnason:

Jeg ætla mjer ekki þá dul, að fá sannfært hv. 2. þm. Ám. (E. A.) í þessu máli, þar sem hann virðist alveg vilja ganga fram hjá aðalatriðinu í síðustu ræðu minni. Það er þegar komið í ljós, að ullarmatið er mjög misjafnt úr hinum ýmsu fjórðungum, og er það yfirmatsmönnunum að kenna. Nefndin setur því fjórðungsmerkin til þess að gera þetta samræmisleysi ósaknæmt. Merkin eiga að svara því, hvort öll ullin reynist jafnvel metin. Ef það kemur fram, að ullin sje jafngóð og jafnvel flokkuð úr öllum fjórðungum, þá er merkingin meinlaus, og ástæðulaust að vera móti henni, en komi hitt í ljós, þá er hún þörf. Útlendur markaður hefir tekið norðlenska ull fram yfir aðra ull; fyrir því er fengin óyggjandi reynsla, þó hv. 2. þm. Árn. (E. A.) viti það ekki, og fyrir þeim úrskurði verður bæði hann og aðrir að beygja sig.