22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í C-deild Alþingistíðinda. (3355)

91. mál, ullarmat

Pjetur Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að tala hjer oftar, en það hefir komið hjer ýmislegt fram, sem jeg get ekki setið þegjandi undir.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um það sem þjóðsögu, að norðlenska ullin væri betri en sunnlensk. Þetta hlýtur að vera sprottið af ókunnugleik hans. Allir, sem hafa átt við erlendan ullarmarkað, vita, að norðlenska ullin hefir verið meira metin, og það var eini skilsmunur, sem gerður var á ull áður en matið kom: norðlensk ull og sunnlensk. Ullarmatið hefir gert það að verkum, að ekki er lengur hægt að gera þennan greinarmun, og kunna kaupendur því illa.

Í öðru lagi vildi jeg gera athugasemdir út af ummælum hv. þm. Dala. (B. J.). Hann leit svo á, að till. um að flokka ull eftir fjórðungum væri komin frá Norðlendingum af eigingjörnum hvötum. Hann býst þá við því, að með þeirri flokkun yrði eldur skaraður að köku Norðlendinga. Þó jeg sje ekki eins viss um þetta eins og hann virtist vera, þá býst jeg við, að það yrði þeim hagur, sem betri eiga ullina. En þessi eigingirnisaðdróttun er samt ástæðulaus og ósanngjörn. Háttv. þm. Dala. (B. J.) veit það eins vel og jeg, að Norðlendingar hreyfðu hvorki hönd nje fót til að hafa áhrif á ullarmatslögin 1913 sjer í vil. Það var vitanlegt, að þau, með því að slengja saman hinum eldri viðurkendu flokkum, norðlenskri ull og sunnlenskri, sköðuðu Norðlendinga, en þó mátu þeir meira, að ullin fengist betri yfirleitt. Nú er kominn tími til að bæta um það, sem gert var 1913, og láta þá líka Norðlendinga fá rjett sinn, því það er rjettur hvers manns að fá vöru sína borgaða eftir gæðum hennar. Þeir hafa beðið þolinmóðir þessi ár, og þess vegna þykir mjer hart að fá brigsl ein og aðdróttanir í staðinn. Jeg stóð upp af því, að Þetta mátti ekki viðgangast ómótmælt.