22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í C-deild Alþingistíðinda. (3357)

91. mál, ullarmat

Bjarni Jónsson:

Jeg á bágt með að skilja, hvernig hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir farið að misskilja mig eins og hann gerði. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að það yrði til nytja, ef 4 merki yrðu sett, því jeg veit, að norðlenska ullin er hvorki þelmeiri nje togminni en ull annarsstaðar frá. En jeg hjelt því fram, að meiri hl. sæi svo skamt, að hann hjeldi, að þjóðsagan hjeldist. Jeg sagði heldur ekkert ilt um framkomu Norðlendinga á þingi 1913, en hitt sagði jeg, að þegar mann ganga svo í berhögg við sjálfa sig, að vilja fá samræmi með fjórum merkjum, þá getur það ekki sprottið af öðru en þeirri hagnaðarvon, sem þjóðsagan verndar. Jeg get nefnt Bíldudalsfiskinn sem dæmi. Hann var seldur hærra verði en íslenskur fiskur, en var þó vitanlega ekkert betri en annar fiskur. Þar er ekki betri beit í hafi fyrir þorska, nje nein önnur hlunnindi, sem gætu gert Bíldudalsþorskinn að aðli þorskkindanna; en þjóðsaga var um það engu að síður. Hún hefir ef til vill verið búin til af kaupmönnum í gróðaskyni, og líkt getur staðið á um þjóðsöguna um norðlensku ullina. Þetta hyrfi, ef samræmi kæmist á, og væri þá betur en ekki. Nú vilja Norðlendingar segja: „Þetta er 1. flokkur norðlenskrar ullar, en Norðurland er 1. flokkur fjórðunganna.“ — Jeg skil ekki annað en að allir sjái, að þetta hefir enga aðra átyllu en hjegómann, og hjegómamenn einir geta hampað því. Jeg vona, að þeir verði ekki í meiri hl. hjer í þessari hv. deild, þó að stóru trumburnar sjeu slegnar þeim til lofs og dýrðar.