22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (3377)

59. mál, bann gegn refaeldi

Flm. (Björn R. Stefánsson):

Jeg heyrði það á ræðu hv. þm. Stranda. (M. P.), að minni rækt mun lögð við útrýmingu refa á Vesturlandi en á Austurlandi.

Og það þótti mjer merkilegt að heyra, að nokkur skuli verða til þess að leyna greni, sem hann hefir fundið.

Á Austfjörðum mundi slíkt ekki koma fyrir, því þar er ekkert látið undir höfuð leggjast, sem verða mætti til að útrýma refunum.

Þar var í sumum sveitum t. d. grenjalegum haldið áfram í nærfelt 20 ár, án þess að nokkurt gren hafi fundist.

Ef greni finst, getur það stundum verið erfitt að fá góða skyttu, en engin dæmi veit jeg þess þar eystra, að hætt væri fyr en skyttan fjekst og grenið unnið, oftast að öllu leyti.

Þá sagði sami hv. þm. (M. P.), að engin sönnun væri fyrir því, að allir yrðlingarnir væru drepnir á grenjunum, þó svo væri kallað, en jeg veit þó ekki betur en svo hafi verið, enda eru yrðlingarnir fluttir heim og sýndir til sannindamerkis.

Það kom líka í ljós, eins og jeg hafði getið til, að ekki er nógu örugt eftirlit með tófunum, þar sem þær eru aldar, þar sem hv. þm. (M. P.) viðurkendi, að það kæmi fyrir, að þær hlypu á land. Hann bætti því við, að þær skiluðu sjer aftur til eyja, en hvernig ættu refagreyin að komast út aftur, ef svo færi, að aflandsvindur kæmi, meðan þeir væru á landi og ísinn ræki frá?

Jeg tók ekki eftir því, á hve löngum tíma hann sagði að 200 tófur hefðu verið drepnar. Getur vel verið, að færri hefðu náðst, ef ekkert refeldi hefði átt sjer stað, því hefði verið um það eitt hugsað, að drepa refina, þá tel jeg víst, að refahjörðin hefði verið orðin minni, og veiðin af þeirri ástæðu minni, en ekki af þeirri ástæðu, að menn hefðu lagt minni stund á refadrápið.

Háttv. andmælendur gera lítið úr dýrbit þar vestra. Jeg man ekki, hvað sýslubúar eru margir í Strandasýslu, en framteljendur eru 311, og koma þá 46 kindur á hvern, og þar sem tófan er 5 kinda virði, get jeg hugsað mjer, að góð skytta, sem enga kind á, gæti leiðst til þess að leyna grenjum í hagsmunaskyni.

Í sambandi við fjáreigendur hljóta þeir menn þó að vera svo fáir, að slíkt má ekki líðast.

En einkennilegt er það, eins og fje er vænt í Strandasýslu, hve margar eru þar geldær. (E. A.: Ekki lembir tóan).

Prófessorinn veit þó líklega, að þær ær, sem missa undan sjer af dýrbiti, teljast geldar, þótt hrútlembdar hafi verið. Hitt þykir mjer ósennilegt, að ær sjeu þar svo síðbærar, að ekki nái málburði, og teljist geldar fyrir þá sök.

Þá furðaði hv. þm. (M. P.) sig á því, að mjer skyldi geta dottið í hug, að stefnuvargur þessi, sem áður var á minst, hefði komið af Vesturlandi. Hitt þykir mjer þó enn meira undrunarefni, ef hann hefir komið frá Spitsbergen, því enn þá torsótari tófuleið er það, eða ef hann hefir getað leynst svo lengi í afrjettum og heimahögum, án þess að gera vart við sig. En eins og jeg hefi áður tekið fram, hefir ekki orðið tófu vart þar eystra um langa hríð að nokkru ráði fram að 1916.

Það er því sennilegra, að mín tilgáta sje rjett, og sama mun að segja um tófuna á Reykjanesi, að hún mun hafa hlaupið að vestan líka.

Jeg ímynda mjer, að engan geti furðað á því, að okkur þykir undarlegt, hversu vargur þessi hefir vaðið yfir aftur á fáum árum.

Jeg hefi heyrt þá mótbáru, að minka mundi áhugi manna á veiðunum, ef ræktin væri bönnuð.

Það er ef til vill hugsanlegt. En jeg hefi heyrt annað að vestan, að menn hafi gert það af ásettu ráði, ef yrðlingar hafa náðst, að drepa þá ekki tófuna, heldur sleppa henni viljandi, til þess að eiga hana til undaneldis

Þetta get jeg að vísu ekki sannað, en gaman þætti mjer að heyra, hvernig því verður svarað.