22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (3379)

59. mál, bann gegn refaeldi

Magnús Pjetursson:

Úr því að háttv. Mýra. (P. p.) vill vísa máli þessu til hv. landbúnaðarnefndar, þarf jeg ekki að vera langorður, því að þá mun síðar gefast tækifæri, svo framarlega sem hún svæfir það ekki hægt og hljóðalaust.

En eitt var það, sem jeg vildi segja hv. flm. (B. St.), og það er, að dæmið, sem jeg tók, var alls ekki úr mínu hjeraði, eins og hann gekk út frá.

En það væri fróðlegt fyrir hv. landbúnaðarnefnd að athuga það, hvort minkað hafi tófudráp, eða fækkað skinnum, sem út hafa flust síðan eldið byrjaði.

Það ætti ekki að reynast erfitt, þar sem svo stutt er síðan hún hófst. En af því má marka, hvaða áhrif hún hefir haft á útrýming tófunnar.

Þá virtist hv. þm. (B. St.) hafa varið miklum tíma í það, að rannsaka rollurnar á Ströndum. En jeg get gefið honum þær upplýsingar, að mönnum er þar ant um lömb sín, engu síður en annarsstaðar. þar mundi því fljótt kvartað, ef hætta þætti búin af stefnuvargi þessum, því að ekki munu þeir svo margir þar, sem ala hann, að hinir sjeu ekki í miklum meiri hluta, ef þeir teldu eldið orsökina.

Um geldu ærnar er það að segja, að landshættir eru þannig, að sýslan liggur næst strandlengis, og er það viða fjörubeit, og ef hv. þm. (B. St.) þekkir það, þá er til sú veiki í unglömbum, sem fjöruskjögur heitir, og drepur það oft lömbin, ef ekki er fyrirbygt. Annað er það, að sauðburður byrjar óvenjulega seint á Ströndum.

En aldrei hefi jeg heyrt, að vanhöldin væru dýrbiti að kenna, fremur þar en annarsstaðar. En það ætti þó að vera mest á Vesturlandi, eftir skoðun hv. flutnm. (B. St.).

En ekki get jeg hugsað mjer, að heill hópur af tófum hafi hlaupist vestan úr Strandasýslu beina leið til Austfjarða, enda hefðu þær þá átt að vera markaðar, ef þær hefðu úr eldi sloppið, þar sem hverjum manni er þar gert að skyldu að marka tófur sínar, til þess að hægt sje að koma fram ábyrgð á hendur þeim, sem ekki gæta þeirra svo vel sem skyldi.

Viðvíkjandi þeirri sögu, að menn hefðu slept eldri dýrum af ásettu ráði, skal jeg geta þess, að slíkt hefi jeg aldrei heyrt fyr, að undanskildum þó þeim tröllasögum, sem borist hafa úr fjarlægum hjeruðum, sem ekki þekkja til, en er í nöp við refaeldið. En slíkt er auðvitað ekkert annað en uppspuni.

Þá þurfti hv. þm. Mýra. (P. Þ.) að árjetta orð hv. meðflm. síns (B. St.), og kom hann með ýmsar nýstárlegar upplýsingar. Um aðalatriðið get jeg verið honum sammála, að refirnir geri mein. En þar af leiðandi get jeg ekki fylgt honum að málum, að flytja frv. hjer á þingi, sem miðar að því að fjölga þeim.

Svo lítur út, sem hann hafi skakkar skoðanir á refaeldinu, þar sem hann heldur, að þeir sjeu aldir til þess að auka kyn sitt.

Slíkt á sjer ekki stað. Allar tófur eru drepnar fyrir ákveðinn dag á vetrinum, og er sá tími miðaður við það, að drepnar sjeu tófurnar áður en ís kemur að landi. Er sá tími venjulega frá hátíðum til miðþorra, eða þar um bil.

Sagan um aumingja manninn, sem misti út úr fjárhúsi sínu alla yrðlingana, og bar sig síðan upp fyrir sýslumanni, finst mjer allkátleg. Mjer finst það og bágborið af Mýramönnum að hafa þetta mál í svo mikilli vanrækslu, að þeir gátu ekki einu sinni sektað manninn. Sýslunefnd hefði átt að vera búin að setja inn í fjallskilareglugerðina reglur viðvíkjandi refaeldi og geymslu; má hitt heita furðulegur trassakapur.

Jeg vil aftur biðja hv. landbúnaðarnefnd um að athuga málið vel. Við erum allir sammála um það, að refum beri að eyða, en mjer finst þessi leið, sem hjer er bent á, verða til þess að fjölga þeim.

Margt annað þarf einnig að athuga, sem að eyðingu refa lýtur.