22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (3380)

59. mál, bann gegn refaeldi

Bjarni Jónsson:

Jeg er því miður ekki svo vel að mjer í refafræði sem skyldi, en þó held jeg, að þessir íslensku refir hafi ekki verið hjer allan aldur sinn, heldur sjeu þeir aðkomudýr, eins og þjóðin. Það mætti rannsaka það í hv. landbúnaðarnefnd, hvort refkindurnar á Austurlandi eru Grímseyingar, Elliðeyingar eða Grænlendingar; en það ætti að sjást á mörkunum.

Það er rjett hjá hv. þm. Mýra. (P. Þ.), að Dalamenn hafa kvartað undan refafaraldri og farið fram á það, sumir hverjir, að slík lög yrðu samin, sem þessi eru. En þó eru þeir margir, sem leyfa vilja refaeldi, ef trygging er nægileg fyrir því, að tryggilega sje frá öllu gengið, svo að enginn refurinn sleppi. Það er sem sje einn bóndi þar í Dölunum, Jón í Ljárskógum, sem alið hefir upp tófur, og það þykjast allir Dalamenn vissir um, að engin hafi frá honum sloppið. Voru Dalamenn helst hræddir við Elliðeyinga, en ef þeir hefðu heyrt sögu hv. þm. Mýra. (P. Þ.), að Mýramenn hefðu haft refina fyrir húsdýr undanfarið, en hefðu nú gefið þá lausa, þá munu þeir skilja, að bítur sá, sem þeir hafa orðið varir við, muni vera þaðan kominn.