23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í C-deild Alþingistíðinda. (3386)

59. mál, bann gegn refaeldi

Sigurður Sigurðsson:

Það eru að eins örfá orð. — Jeg held, að þetta mál sje vandameira en menn halda, og vandameira en virðast má í fljótu bragði. Jeg álít það æskilegast, og að því eigi að stefna, að útrýma öllum refum — öllum refum. Á þingi 1912 bar jeg fram þá till., að skora á stjórnina að safna skýrslum um alt það tjón á sauðfje, sem menn vissu um að refir gerðu, og gera ráðstafanir til að útrýma þeim; gera ítarlegar ráðstafanir að eyðingu refa. (M. P.: Allra refa). Já, allra refa. Þó að till. þessi fjelli í þinginu, þá kom það þó greinilega í ljós við umr., að menn töldu þetta æskilegt. Bann gegn refarækt er ekki nóg; það verður að fara lengra. Meðmælendur refaræktarinnar hafa haldið því fram, að hún miðaði einmitt að því að fækka refum. Jeg gef það eftir, að þetta geti að sumu leyti verið rjett. Refaræktin hefir vitanlega enga hættu í för með sjer, ef hún er gerð innan öruggra takmarka og svo er um hnútana búið, að refirnir geti ekki sloppið. Þá má segja, að hún geri ekkert til, og sje að vissu leyti til góðs. En hitt er satt, að það er víða erfitt að búa svo um hvort heldur er í eyjum eða húsum, að refirnir ekki sleppi. Það nægir í því sambandi að benda á það dæmi, sem hv. þm. Mýra. (P. J?.) tilfærði.

En málið er umfangsmeira en þetta, og það verður að gera eitthvað meira í því. Það verður að gera alvarlega gangskör að því að eyða refum. Það er ekki nóg að fækka þeim; það verður að útrýma þeim að fullu og öllu. Það verður að sjá svo um, að stjórnin herði á sýslunefndum að ganga ríkara eftir refaeitrun og öðru því, sem miðar að útrýmingu þeirra. Það voru bornar brigður á það hjer í deildinni í gær, að þær framfylgdu settum reglugerðum um refaeitrun, en það má á engan hátt eiga sjer stað.

Það er komin fram till. um að vísa þessu máli til landbúnaðarnefndar. Það snertir að vísu landbúnaðinn, en þó er ekki þar með sagt, að það eigi þar heima. Mörg mál, sem snerta landbúnaðinn, fara ekki til þeirrar nefndar, heldur til annara, og fer það eftir eðli málanna. Nú lít jeg svo á, að eftir eðli þessa máls eigi það heima í allsherjarnefnd. Það veitir heldur ekki af lögfræðingum til að fjalla um það, því vel geta verið gömul lagafyrirmæli um þetta efni, sem taka þarf til greina. Jeg hefi það eftir lögfróðum manni, að svo muni vera. Það er þess vegna mín till. að vísa málinu til allsherjarnefndar; jeg álít, að þar eigi það heima og þar sje því vel borgið, þar sem tveir lögfræðingar eru í nefndinni.