02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í C-deild Alþingistíðinda. (3410)

59. mál, bann gegn refaeldi

Guðmundur Ólafsson:

Þegar maður hefir sett fyrirvara aftan við nafn sitt, verður maður víst að taka til máls. Jeg hefi ekki getað orðið sammála hv. meðnefndarmönnum mínum. Jeg er vinveittur frv., og þótt jeg væri ekki ótilleiðanlegur til að leyfa refaeldi með nákvæmu eftirliti, þá tel jeg alt of mikið við þetta mál haft, að vísa því til stjórnarinnar til rannsóknar, með aðstoð sjerfræðinga. Annars veit jeg ekki til, að völ sje á neinum sjerfræðingum í þessari grein. Enga sje jeg með styrk í fjárlögunum, og er þá vísast, að þá sje hvergi að finna. (M. T.: Margir eru refafróðir úti um sveitirnar). Jeg hygg, þó, að öll refafræði sje í molum, og tæpast eru til aðrir en sjálfmentaðir menn í þeirri grein. Jeg sje enga ástæðu til þess, að refum sje haldið við í landinu, og mun því greiða frv. atkv. mitt. Mjer er næst að halda, að orðrómurinn einn af gífurlegum umr. um þetta mál í hv. Nd. hafi hrætt svo hv. deild, að frv. sje varla lífs von. En jeg er ekkert hjartveikur, og mun því hiklaust halda fram mínum skoðunum fyrir því.