04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E. ):

Jeg hefi ekki heyrt nema lítinn hluta af umræðunum um þetta mál, því að jeg var við annað bundinn. Þó mæli jeg hiklaust með því, að frv. sje samþykt óbreytt. Þó skal jeg taka það fram, að í sjálfu sjer var mjer það ekki kappsmál, að tollur væri lagður á vínanda, sem ætlaður er til iðnaðar og brenslu og 4 kr. tollur þótti mjer alt of hár; hins vegar get jeg vel unað við 2 kr. tollinn. Það er kunnugt að allmikill ágreiningur hefir verið í þinginu um hina ýmsu liði frv. Sumir hafa lækkað tollinn á þessum liðnum, en hækkað á hinum og menn greinir yfir höfuð á um, hvað tolla skuli og hvað ótollað skuli látið. Þegar svo er háttað, þá er eigi lítil áhætta að láta málið hrekjast milli deilda og afdrif þess þá með öllu óviss.

Jeg legg áherslu á það, eins og hv. þm. Stranda. (M. P.), að málið sje afgreitt sem fyrst frá þinginu, því að landssjóður missir tekjur við hvern drátt, sem á því verður.

Breytingin á frv. frá því það fór úr þessari deild er eigi önnur en sú, að bætt hefir verið við tolli á brensluspíritus og ilmvötn. Hvað ilmvötnin snertir, geri jeg ráð fyrir að allir sjeu á því að tolla þau; einasta má óttast, að erfitt verði að ná í þann toll; þó geri jeg ráð fyrir, að hv. deild muni eigi þykja ráðlegt að láta málið hrekjast milli deilda þess vegna.

Það, sem á milli ber, er þá tollurinn á brensluspíritus. Sá tollur hafði fylgi í hv. Ed., og líklega hefir hann líka það fylgi hjer í deild, að hann muni fá framgang; það er því að eins til að tefja fyrir málinu, að fallast ekki strax á hann. (E. A.: Þá er líka ráðlegast að tala sem skemst.) Hv. þm. (E. A.) er vanur að tala langt og ítarlega um mál sín, og þótt mjer hafi stundum leiðst ræður hans, þá hefi jeg aldrei fundið að margmælgi hans. Að öðru leyti eru skattamálin þau alvörumál, að hjer á ekki við neitt spaug.