06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í C-deild Alþingistíðinda. (3425)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

það var vitanlegt, að hv. flm. (St. St.) yrði óánægður, ef frv. næði ekki fram að ganga, en þó skil jeg ekki, að hann geti ekki sætt sig við niðurstöðu nefndarinnar. Það er enn ekki loku fyrir það skotið, að hann fái sitt fram.

Hv. flm. (St. St.) vildi láta líta svo út, sem aðalástæða nefndarinnar væri verðið, en svo var ekki. Aðalástæðan var það, að nefndin vildi láta eitt yfir alla ganga, og fresta því málinu þangað til tekin væri ákvörðun um, hvort selja ætti kauptúnum lóðir yfirleitt, eða ekki.

En viðvíkjandi verðinu má taka það fram, að fyrir nokkrum árum var það miklu lægra en það er nú, og þær lóðir, er þá voru leigðar, voru leigðar fyrir minna en nú mundi verða. Jeg skil heldur ekki, hvað knúið getur kaupstaðinn til kaupanna annað en hagnaðarvon. Bærinn getur haft eins mikil umráð yfir landinu og honum líkar, til að skipa götum og ráða húsagerð. Lögreglusamþykt og byggingarsamþykt nægir til þess. Sú ástæða, að bænum sje bráð nauðsyn á landinu til að verða húsbóndi á sínu heimili, er því einskis verð, og það því síður, sem bærinn hefir Leyning til nytja fyrir mjög lítið eftirgjald. Jeg sje ekki að kaupstaðurinn græði annað á kaupunum en peninga eða peningavon. Það getur verið næg hvöt fyrir hann, en þá er eftir að vita, hvort við, sem eigum að gæta hagsmuna landsins í heild, föllumst á að láta þessa hagnaðarvon frá landinu til kaupstaðarins. Sú ástæða, að kaupstaðurinn eigi hægra með að fá lóðir útmældar til verslunar, ef hann á landið, er á engu bygð.

Þá talaði hv. flm. St. St.) um það, að stjórnin þyrfti ekki að fara eftir matinu. En eru nokkrar líkur til, að stjórnin sjá fyrir, hvað landið kann að stiga? Jeg held, að slíkt sjái enginn fyrir. Ef selt verður, þá verður það vitanlega með sanngjörnu verði, eftir því, sem matsmenn áætla. En þær áætlanir geta hæglega reynst skakkar, og er enginn kominn til að meta, hvort svo sje, nema reynslan ein.

Þá vítti hv. flm. (St. St.) það, að nál taldi málið illa undirbúið, og las upp brjef frá biskupi, máli sínu til sönnunar. Brjefið hlýtur að vera nýlega dagsett; að minsta kosti hefir nefndin ekki heyrt það fyr en nú, og er því nál. rjett. Þá held jeg, að skjóti einhverju skökku við með lóðargjöldin. Prestur segir að eins, að þau sjeu nálægt 6600 kr., en jeg býst við, að þau sjeu hærri, og víst er, að þau eru altaf að hækka.

Það, sem fyrir kaupstaðnum vakir, getur ekki verið annað en hagnaðarvon, og lái jeg það ekki, þar sem getur oltið á hundruðum þúsunda, hvort selt verður eða ekki, og þar sem hv. flm. (St. St.) skoðar sig frekar sem þm. kjördæmis síns en þm. landsins, finst mjer ekki einkennilegt, þótt hann beri frv. fram.