06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í C-deild Alþingistíðinda. (3427)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Stefán Stefánsson. Jeg stend upp vegna einstakra atriða í ræðu hv. frsm. (M. G.). Það var á honum að skilja, að verðið á landinu mundi einvörðungu metið eftir núverandi leigu. En eins og jeg tók fram, býst jeg við, að matsmennirnir taki aðallega til hliðsjónar leiguna nú síðustu árin. Fyrstu lóðirnar, sem leigðar voru, hafa að eftirgjaldi til ekki verið leigðar nándar nærri eins eins hátt og nú er orðið. Geri jeg því ráð fyrir, að matsmennirnir líti fremur á nútímann en fortíðina og reyni að gera sjer sem ljósasta grein fyrir nánustu framtíð, að því er snertir atvinnuvegi þar og þá eftirspurn lóða. Þetta er því engin ástæða hjá hv. frsm. (M. G.). (M. G.:

Verðið getur hækkað.). Veit jeg það vel, en svo er um hvern þann hlut, sem seldur er, að hann getur hækkað í verði. Ef aldrei ætti að selja neitt það, sem gæti hækkað í verði, þá hygg jeg að færi að dofna yfir viðskiftalífinu. Jeg viðurkenni það fúslega, að kaupstaðurinn býst við að hafa mjög gott af kaupunum, með öðrum orðum, að þau sjeu honum bráðnauðsynleg. Ef svo væri ekki, þá efast jeg um, að mjer hefði verið falið að flytja þetta frv. En viðskifti geta verið þannig, og eru enda oftast svo í eðli sínu, að báðir partar þykjast hafa einhvern meiri eða minni ávinning. Annars er það mjög mikið efamál, hvort þessar jarðir komast nokkurn tíma í jafnt verðgildi, ef ríkið á þær, eins og ef bæjarfjelagið eignaðist þær. Hitt er miklu líklegra, að ef bæjarfjelagið á landið og hefir öll frjáls umráð þess, þá verði landið langtum verðmætara en ella, og er salan þá um leið orðin landsins hagur, sem okkur kemur öllum saman um að við eigum að styðja. Bænum er landið meira virði en ríkinu, og á þeim grundvelli getur salan farið fram svo hvorugt tapi.

Þá var hv. frsm. (M. G.) að tala um biskupsbrjefið, og að það hljóti að vera nýlega dagsett. Og virtist mjer, sem hann vildi gefa það í skyn, að jeg hefði pantað brjefið, til að draga biskup inn í málið mjer til stuðnings. Ef svo er, þá er það hreinn misskilningur. Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að biskup væri sölunni hlyntur. Vissi jeg það af samtali við hann. En svo fór biskup í ferðalag og hefir verið að heiman þangað til nú, að hann er nýkominn heim. Jeg fór því til hans og spurði hann enn um álit hans í þessu máli, og var það á sama veg og verið hafði. Háttv. frsm (M. G.) þarf því ekki að vera með neinar dylgjur um pantanir. (M. G.: Er ekki þm. að segja það sjálfur?). Jeg segi frá því, eins og það var, en jeg vissi vel, að ummæli hv. frsm. (M. G.) áttu að skiljast á annan veg. Jeg skildi tóninn.

Þá mintist hv. frsm. (M. G.) á lóðagjöldin. Hvað þau snertir, þá gat jeg ekki gefið þar betri upplýsingar, en jeg gerði. Jeg lagði fram afskrift af mati yfir- og undirfasteignamatsnefndar og símaði til Siglufjarðar og bað prestinn á Hvanneyri um upplýsingar. Símskeyti hans hefir hv. frsm. (M. G.) sjeð. Að lóðagjöldin eru litlu hærri eftir skeytinu er sennilega vegna þess, að prestur hefir leigt eitthvað af grunnum í vor, en jeg býst við, að nefndin verði að taka matsmennina trúanlega, að því er matsgerðin nær.

Annars gleður það mig, hvernig svo sem þetta mál fer nú við atkvæðagreiðsluna, að stjórnin er því þó hlynt. Og býst jeg því ekki við, verði málinu vísað til hennar, að hún leggi á móti því, í trássi við vilja Siglfirðinga og þeim til tjóns. Svo getur farið, og er ekki ólíklegt, að önnur stjórn en sú, sem nú situr, fjalli um málið, en þá lít jeg svo á, að sú stjórn verði að telja sig bundna við yfirlýsingu núverandi stjórnar. Hins vegar vænti jeg þess, að hv. þm. skoði vel huga sinn, áður en þeir kasta þessu máli í stjórnina, því hvert ár, sem líður án þess, að frv. verði að lögum, heftir ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir bæjarfjelagsins.