06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í C-deild Alþingistíðinda. (3428)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg veit ekki, hvort háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) hefir skilið mig rjett. Jeg hefi ekki lagt það til, að málið næði fram að ganga á þessu þingi. Till. nefndarinnar kemur heim við þær athugasemdir, sem jeg gerði við frv. við 1. umr. En það er satt, að jeg taldi annað að selja kaupstöðum og sveitarfjelögum en einstökum mönnum. Það er þess vegna ekki á ferðinni hjer algengt þjóðjarðasölumál, og mega menn ekki blanda því saman. Jeg er yfirleitt hlyntari því, að kaupstaðir og sveitarfjelög kaupi jarðirnar, ef ríkið á annað borð selur þær. Nefndin hefir ekkert um það sagt, hvort selja á eða ekki. Hún tekur enga afstöðu til þess og heldur þannig málinu opnu. Jeg býst við, að hvaða stjórn, sem við völd verður, geri það í þessu máli, sem hún álítur heppilegast eftir nákvæma athugun. Jeg er ekki hræddur um, að hún láti málið sitja á hakanum, enda verður þess víst gætt, að svo verði ekki, bæði af Siglfirðingum og eins af hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), sem er allötull þegar kjördæmi hans á í hlut.