04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

33. mál, tollalög

Bjarni Jónsson:

Það hefir nú verið talað nokkuð mikið um þennan brensluspíritus, sem jeg veit ekki betur en að notaður sje mestmegnis til drykkjar, því að langt er síðan menn komust upp á að kveikja á hinum svo kölluðu prímusum með steinolíu. Það hefir verið lagður tollur á áfengi, og sekt er við lögð, ef menn láta sjá sig drukna á götum bæjarins. Nú er brensluspíritus síst óáfengari en annað, og því alveg eins rjettmætt að leggja toll á hann eigi síður en annað áfengi, þegar hann er hafður til drykkjar. (E. A.: Hefir hv. þm. (B. J.) smakkað brensluspíritus?) Nei, jeg hefi ekki einu sinni þefað af honum, nema út úr öðrum; ekki segi jeg hverjum.

Jeg stóð annars upp til að minna á það, að hjer um daginn bar jeg upp frv., sem lítil greinargerð þótti fylgja, og var það fyrir þá sök felt frá umræðu í þessari hv. deild. En nú er hjer borin fram brtt. krotuð upp á blað, till. sem enginn hv. þingdm. hefir sjeð fyr en á þessari stundu. Jeg veit ekki til að það hafi verið neitt verkfall í prentsmiðju þingsins, og þó er ætlast til að þessi brtt. komist hjer að svona fyrirvaralaust. Eigi hún að komast að, væri sæmra að hæstv. forseti tæki málið út af dagskrá, svo að hún verði borin fram á venjulegan hátt.