10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (3432)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg vildi, að ekki yrðu miklar umr. um þetta mál nú, og vildi geyma mjer að fara nákvæmlega út í það, nema hjá því verði ekki komist. Þetta frv. er komið frá meiri hl. fjárveitinganefndar, og skal jeg nú skýra frá þeim rökum, sem að því liggja. Hjer hafa verið tveir skólar, sem báðir hafa notið styrks, en flm. eru þeirrar skoðunar, að kenslan, sem þeir veita, sje ekki eins fullkomin og vera ætti. Þeim er það ljóst, að verslunarmenn þarfnast ekki síður sjermentunar en aðrir. Og ef ríkinu ber skylda til að styðja sjermentun annara eins og t. d búfræðinga, vjelfræðinga o. fl., þá ber því eins skylda til að styðja að sjermentun verslunarmanna. Ríkið á að láta sjer umhugað um, að þessi sjermentun verði sem best og eins fullkomin og framast er unt. Nú hefir ríkið styrkt 2 skóla, og eru báðir langt frá því að vera eins góðir og þeir geta verið, og er það illa farið. Til að ráða bót á þessu viljum við, að einn skóli verði stofnaður af almannafje. Þetta er ekki mikið fjárhagsmál, því skólarnir eru þegar styrktir. Stofnkostnaður yrði að vísu nokkur, en þó ekki svo, að horfandi væri í það, því það sem fæst, hæfileg mentun, vegur áreiðanlega upp kostnaðinn.

Það ganga þær sögur, að þessir 2 skólar vinni hver á móti öðrum. Jeg veit ekki, hvað satt er í þessu, en þó held jeg, að einhver fótur sje fyrir því. Það er sagt fullum fetum, að verslunarskólinn ali á óvild til kaupfjelaganna og samvinnustefnunnar, og er það ekki heppilegt. Hjá þessu verður komist, ef skólinn væri einn og óháður stefnum. Við ætlumst til þess, að nemendur kynnist öllum stefnum og hvernig þær hafa reynst, en þeim verður ekki innprentuð nein sjerstök skoðun. Þeir geta tekið við stöðu, þar sem hún best býðst, án tillits til, hvort hún er hjá kaupmanni eða kaupfjelagi.

Jeg álít, að full þörf sje fyrir þennan skóla, og vona, að allir leggist á eitt um að gera hann sem best úr garði. Það getur verið, að einhver hv. þm. sjái ráð til að bæta fyrirkomulag skólans, og verður öllum bendingum tekið með þökkum.

Jeg ætla ekki að fara hjer út í einstök atriði, en þó vildi jeg minnast á eitt, og það er rannsóknarstofa. Ein námsgreinin, sem kenna á, er vöruþekking, en hún verður aldrei að gagni, nema rannsóknarstofa sje til. Það er að vísu til slík stofa við háskólann, en hún er mjög ófullkomin. Auk þess er þægilegra að hafa stofuna í sama húsi, og kostnaður yrði ekki svo mikill.

Þá vildi jeg minnast á annað atriði, og það er kensla í almennri bókmentasögu. Mönnum kann að virðast, að slíkt sje óþarft til sjermentunar verslunarmanna. En það er tekið fram í greinargerð frv., hvernig á þessu stendur. Það er ætlast til þess, að verslunarmenn hafi almenna mentun, auk sjermentunar, og geti umgengist mentaða menn af öllum stjettum. Það er þeim ekki síður nauðsynlegt sem verslunarmönnum, frekar en þeim er það nauðsynlegt yfirleitt. En tal mentaðra manna yfirleitt sveigist oft að bókmentum, og vildum við því ekki, að verslunarmenn stæðu þar að baki. Auk þess verður enginn kostnaðarauki að þessu, er teljandi sje.

Jeg vona, að þessu máli verði vel tekið. Kostnaðurinn er ekki ægilegur, en það, sem fengist, yrði mikið.