10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í C-deild Alþingistíðinda. (3439)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Mjer þykir það mjög leitt, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir tekið svo illa upp það, sem jeg sagði, jafnmeinlaust og það var.

En jeg býst við, að honum sje það kunnugt, að þegar menn vilja hindra framgang einhvers máls, þá er oft til þess gripið að finna á því öll hugsanleg tormerki, einmitt í því skyni að koma því fyrir kattarnef.

En það, sem jeg sagði, var alls ekki nein aðdróttun til hv. þm. (P. J.), og hefði einhver beint slíkum orðum til mín, mundi mjer ekki hafa komið til hugar að taka það illa upp.

Þetta, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að mál þetta heyrði undir mentamálanefndina væntanlegu, er ekki rjett, því að eins og jeg tók fram áðan, þá er hjer um það eitt að ræða, að slá saman stofnunum, sem til eru í landinu, og þar þarf engin nefnd nærri að koma.

En það þykir mjer undarlegt af hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að vera að blanda húsmæðraskólanum inn í þetta mál.

Ef honum er svo mjög umhugað um það mál, hefði það verið rjettara af honum að flytja frv. um það. Jeg fyrir mitt leyti mundi hafa verið því fylgjandi, þar sem jeg veit, að þörfin er fyrir hendi. Jeg býst heldur ekki við, að neinn af flm. þessa frv. hefði orðið því mótfallinn.

Skal jeg svo leggja málið undir dóm hv. deildar, og vænti jeg þess, að þrátt fyrir þessi andmæli verði því þó vísað til 2. umr., og er þá tími fyrir háttv. þm. að breyta, ef eitthvað er, sem betur mætti fara.