12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í C-deild Alþingistíðinda. (3442)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Það voru meiri umr. um þetta mál við 1. umr. en jeg hafði búist við. Mjer er óljúft að endurtaka það, sem jeg sagði þá, og vildi því að eins bæta við örfáum atriðum.

Það, sem fyrir nefndinni vakti, var að fá sæmilega og viðunandi mentun fyrir verslunarmenn. Nú eru tveir skólar, og hvorugur fullkominn. Nefndin sá engin önnur ráð en að landið tæki þetta að sjer og sameinaði þessa tvo skóla í einn, sem kostaður væri af opinberu fje. Það er varla vafi á því, að einn skóli er ódýrari, þótt fullkomnari sje, en tveir, svo kostnaðarauki verður ekki af þessari ráðstöfun nema í byrjun. Vitanlega færi kostnaðurinn fram úr 16 þúsundum, en þessar tvær stofnanir geta ekki komist af með það fje til lengdar, og í framtíðinni verður einn skólinn ekki dýrari.

Á þessum skóla á að kenna það, sem verslunarmönnum er nauðsynlegt, og þar sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) vitnaði til skjals eins um, að samvinnumenn þyrftu sjerstaka mentun, þá sje jeg ekki betur en að hinir hefðu líka gott af að læra það, sem samvinnum. er nauðsynlegt Ekki get jeg hugsað mjer, að samvinnuskólanum yrði þetta tap, því að hann mun ekki svo fullkominn, að hann verði betri en þessi eini skóli. Jeg býst við því, að báðir skólarnir hefðu gott af að sameinast í einn, fullkomnari en þeir báðir eru til samans.

Hjer er spurning um það, hvort halda eigi áfram að styrkja tvo ófullkomna skóla, eða slá þeim saman í einn fullkomnari. Frá hvaða sjónarmiði, sem málið er skoðað, hlýtur það að verða ofan á, að heppilegast sje að stofna þennan skóla, og það nú þegar.

Um orðróminn, sem jeg drap á síðast, hefi jeg það sama að segja og þá, að jeg veit ekki, hvort hann er sannur eða ekki, en hann spillir í öllum tilfellum. Þó óvildin eigi sjer ekki stað nú, þá er orðrómurinn viss með að skapa hana, og er því þarft verk að gera hann að engu, en til þess verður þessi skóli.

Jeg þykist vita, að margir munu hallast að till. meiri hl. nefnarinnar um þennan skóla, og menn hafa ekkert sjerstakt við þær að athuga, því breytingar á þeim hafa ekki verið bornar fram, hvorki af þeim, sem eru með, eða móti málinu.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) lögðu á móti þessu frv. og vildu drátt á framkvæmd málsins. Jeg hefi bent á áður, að engin ástæða sje til dráttar, en það eru altaf einhverjir, sem eru ragir til framkvæmda, og mega menn ekki kippa sjer upp við það. — Um húsrúmið er það að segja, að jeg býst við, að hægt verði að fá það húsrúm, sem verslunarskólinn hefir nú, og rúmar það milli 60–80 nemendur, og ætti það að nægja.

Það sýnist því ekkert sjerstaklega mæla á móti þessu. Því hefir áður verið svarað, sem fram var borið um það, að kenslukrafta vantaði, og gerist ekki þörf á að endurtaka það. Hvað það snertir, að þessi skólastofnun eigi að bíða þess, að lokið sje almennri rannsókn á skipulagi kenslumála hjer á landi, þá sýnist ekki ástæða til þess, því að þessi skóli heyrir ekki beinlínis því til, sem nú á að rannsaka. Þó er ekki ólíklegt, að hann yrði að einhverju leyti tekinn til athugunar; mundi þá verða auðvelt að gera einhverjar smábreytingar á honum, ef þurfa þætti, t. d. bæta við námsgrein eða breyta einhverju í inntökuskilyrðunum. Hitt má fullyrða, að engin rannsókn fræðslumála mun leiða til þess, að verslunarskóli í svipuðu horfi og þessi muni þykja óþarfur. Jeg vil óska, að þeir, sem móti málinu eru, geri glögga grein fyrir, áður en til atkv. er gengið, hvort þeir telji líkindi fyrir, að þessi fyrirhugaði skóli muni að þeirra hyggju verða verri eða dýrari en það, sem við höfum; eða hvort þeir telji það óþarfa, að verslunarmenn fái þá mentun, sem hjer er ætlast til. Til minna en þessa má ekki mælast.

Eins og jeg tók fram við 1. umr., könnumst við flm. málsins við, að frv. geti verið ábótavant í einhverju, og munum því taka með þökkum, ef einhverjir koma fram með brtt. við frv., því til umbóta. Komi enginn með brtt., verð jeg að líta svo á, sem aðrir sjái ekki annað betra en hjer er.

Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, að mentun verslunarstjettarinnar sje ekki nægilega góð, og lítill kostnaðarauki við skóla þann, sem frv. fer fram á, en mikill gróði í aðra hönd fyrir verslunarstjettina að fá hann, og því eigi frv. þetta að ganga sem fyrst fram.