18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í C-deild Alþingistíðinda. (3451)

58. mál, útibú Landsbanka Íslands á Vopnafirði

Pjetur Jónsson:

Jeg verð að fara örfáum orðum um brtt. mína, og um það, að jeg set Húsavík í till. á undan Vopnafirði. Jeg þarf ekki að bæta neinu við orð hv. flm. (Þorst. J.) um nauðsyn bankaútibúa í heldri kauptúnum. Jeg hefi áður látið í ljós þá skoðun mína, að peningastofnun ætti að vera í hverjum verslunarstað, sem nokkra verulega verslun hefði. En jeg set Húsavík framar einungis af því, að þar er meiri verslun en á Vopnafirði, og stærra upphjerað. Jeg býst við, að Landsbankinn þurfi að hugsa sig eitthvað um, áður en hann stofnar útibú þessi, og athuga allar ástæður. Jeg vil láta þess getið, að á Húsavík eru tveir sparisjóðir, sem bankinn gæti verið í sambandi við, og ætti það að ljetta undir stofnun útibús þar. Sparisjóðir þessir höfðu um síðustu áramót hartnær 300 þús. kr. í innstæðufje báðir saman.