20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í C-deild Alþingistíðinda. (3461)

58. mál, útibú Landsbanka Íslands á Vopnafirði

Þorsteinn Jónsson:

Háttv. fjárhagsnefnd hefir ekki þóknast að mæla með þessari till. Og má því álíta, að dagar hennar sjeu taldir. En þegar um það tvent er að velja, að fella till. eða vísa henni til stjórnarinnar, þá kýs jeg þann síðari kostinn heldur. Hins vegar finst mjer satt að segja, að hv. fjárhagsnefnd hafi farið nokkuð fljótfærnislega með þessa till.

Í fyrsta lagi gengur nefndin út frá, að það sjeu að eins hjeraðsbúar á svæðinu frá Langanesi til Jökulsár í Dal, sem komi til að hafa not af útibúi á Vopnafirði. En þarna hefir hv. nefnd brostið þekkingu á málinu, sem hún hefði getað aflað sjer með hægu móti. Vopnafjörður liggur, eins og ætti að vera kunnugt, svo vel við ýmsum öðrum hjeruðum, að íbúar frá Jökulsá á Fjöllum austur að. Lagarfljóti gætu sótt til þessa útibús. Það mætti því með rjettu tvöfalda fólkstöluna, þeirra, sem til útibúsins næðu, frá því, sem fjárhagsnefnd áætlar, þannig að það yrði alt að 4000 manns. Ein af ástæðum, sem hv. nefnd færir fram móti þessari till., er sú, að á Vopnafirði hafi verið sparisjóður, sem síðan hafi lagst niður, og því muni ekki vera þörf þar fyrir slíka peningastofnun sem þessa. En með þessu er engan veginn sagt, að ekki sje þörf fyrir peninga þarna, heldur hitt, að ekki var til fje til að leggja í sjóðinn. Á þeim tíma, sem sjóðurinn lagðist niður, var hið mesta harðæri, og búnaðist mörgum illa. Þar við bættist, að fólkið streymdi burt til Ameríku. Síðan hefir þetta batnað stórum, svo að nú er þar stórum betra ástand en áður. Óhætt er að segja, að óvíða á landinu sje fallegra og betra hjerað en Vopnafjörður, og er jeg viss um, að ef fje væri þar nægilegt fyrir hendi, og íbúunum gert mögulegt að koma verkum sínum í framkvæmd, þá mundi fólkinu fjölga, og þetta verða hinn mesti framtíðarstaður. Auk þess hefir háttv. nefnd alveg gengið fram hjá því, að tvö sjávarútvegsþorp eru að rísa upp skamt frá Vopnafirði, sem eru Bakkafjörður og Skálar á Langanesi. —

Skálar eru eitt með fiskisælustu stöðum á Austurlandi, enda hefir útgerð þar aukist stórum á síðari árum. Það, að nefndin telur Húsavík vera heppilegri stað fyrir útibú, skal jeg ekki fara að deila um. En það er skoðun mín, að eitt af stærstu framfaraskilyrðum þessa lands sje það, að peningastofnanir sjeu settar sem allra víðast á landinu, helst í öll kauptún landsins, þar sem landsbúar geti haft aðgang að þeim. Fyrirkomulagi á rekstri þeirra má haga svo, að ekki verði tilfinnanlegur kostnaður við hann, þar sem útibúin eru lítil.

Að endingu vil jeg geta þess, að ef hv. deild sjer sjer ekki fært að samþykkja till., tel jeg æskilegt, að henni verði vísað til stjórnarinnar.