20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (3462)

58. mál, útibú Landsbanka Íslands á Vopnafirði

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Það kom til mála í fjárhagsnefnd, hvor leiðin skyldi farin, að vísa þessu máli til stjórnarinnar, eða fella það á annan hátt. Nefndin leit svo á, að þó því væri vísað til stjórnarinnar, þá væri það í rauninni hið sama og fella það, því reynsla er fengin fyrir því, að tilvísun á þann hátt er í framkvæmdinni hið sama og fella málið; þangað á það ekki annað erindi en að liggja þar svo og svo lengi, án þess að koma til framkvæmda. Nefndin var því þeirrar skoðunar, að þetta kæmi í sama stað niður. þó er það henni ekki kappsmál á neinn hátt. Svo að ef hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) kýs það heldur, þá liggur nefndinni það í ljettu rúmi, Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði í ræðu sinni, að nefndin hefði farið fljótfærnislega með málið og brostið þekkingu á því. Þetta er rjett að því leyti, að jeg, sem samdi álit nefndarinnar, er ókunnugur staðháttum þar eystra. Þó vil jeg ekki láta þess ógetið, að jeg ráðfærði mig við menn, sem eru þarna nákunnugir, áður en jeg samdi álitið, og fjekk auk þess upplýsingar hjá hagstofustjóra um fólksfjölda og verslunarmagn og annað, er að málinu lýtur. Þá benti hv. þm. (Þorst. J.) á það, að þarna væri mikil þörf fyrir peningastofnun. Jeg skal ekki rengja hann um það. En þess er að gæta, að svo má segja um marga fleiri staði, og það með meiri rjetti, að jeg hygg. Það er ekki nema eðlilegt, að óskum um þetta sje beint að bankanum. En um leið og farið er fram á slíkt, verða menn að sætta sig við, að bankinn láti þá staði ganga fyrir, sem hann telur að standi næstir, hvað snertir skilyrði og getu. Því fer fjarri, að jeg vilji á nokkurn hátt hnekkja þessu eða öðrum málum. En hins vegar finst mjer skiljanlegt, að þeir staðir verði látnir sitja í fyrirrúmi, sem best hafa skilyrðin. Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði, að nefndin hefði gengið fram hjá því, að þarna væru að myndast álitleg sjávarþorp. En það er ekki rjett. Nefndinni var þetta vel kunnugt, þótt henni virtist það ekki nægilegt til að ráða um úrslit málsins. — Jeg skal ekki rengja það, sem hv. þm. (Þorst. J.) sagði um sparisjóðinn, og af hverju hann hefði lagst niður. En það, að ekki hefir verið stofnaður sparisjóður aftur, finst mjer einmitt benda til þess, að ekki sje knýjandi þörf fyrir peningastofnun á þessum stað, því ef svo væri, mundu hjeraðsmenn hafa sjeð og fundið til þarfarinnar og þar, sem víða hefir átt sjer stað annarstaðar, reynt að koma á stofn nýjum sparisjóði. Hins vegar geng jeg út frá, eins og jeg drap á áðan, að bankastjórnin muni, undir eins og hægt er, og þegar röðin kemur að þessum stað, setja útibú þar. Það var leitað álits hennar á þessu máli, og í brjefi sínu til nefndarinnar segir hún, að aðrir staðir standi nær og verði að ganga fyrir. Þar með er því slegið föstu, að mínum dómi, að bankastjórnin hafi í hyggju að stofna útibú á Vopnafirði síðar meir, er hún sjer sjer það fært.