04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

33. mál, tollalög

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að minnast örfáum orðum á „frjálslyndi“ háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Hann bregður mjer um ófrjálslyndi, er jeg vil ekki láta veita afbrigði um skriflega brtt. Mjer fanst það engin synd, þótt jeg stæði nú upp í stað þess þingmanns, sem því er vanastur að mótmæla afbrigðum og fljótastur að spretta upp úr sæti til þess. Jeg benti á að taka málið út af dagskrá, og sýndi svo frjálslyndi mitt. Jeg tala alls ekki um að binda alt við þingsköpin, og tel oft rjett að eltast ekki um of við bókstaf þeirra. En það stóð ekki svo á um daginn, að víkja þyrfti frá þingsköpum, því að greinargerðin með frv. var til. Þarf því ekki að minna mig á það. Jeg þurfti þá engra afbrigða að leita.

En nú er á valdi hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá, svo að ekki þurfi að leita afbrigða. Svo vil jeg og benda á, að ef forseti vill ekki upp á sitt eindæmi ráðast í það ógurlega fyrirtæki, getur hann borið það undir atkvæði deildarinnar, hvort málið skuli tekið út af dagskrá eða ekki. Þá skal jeg lofa hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) að fylgja því, að málið sje tekið út af dagskrá. En jeg er á móti afbrigðum.

Þá er ekki annað eftir en hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Jeg þakka honum þær upplýsingar, er hann gaf mjer og öðrum þgdm. í prímusa-fræði sinni. Mjer þykir að eins leitt að verða að skýra frá grundvelli þeim, sem fræði hans byggist á. Hún hvílir á því, sem alment er nefnt subbuskapur. (M. Ó. : Hvernig?) Ef þrifalega er farið með prímusa, þarf ekkert óloft að stafa af því, þótt olía sje notuð til eldkveikna. Læt jeg mjer nægja athugasemd þessa við hans fræðigrein.