09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í C-deild Alþingistíðinda. (3470)

117. mál, loftskeytastöð í Grímsey

Flm. (Stefán Stefánsson):

Á síðasta sýslufundi Eyfirðinga var samþ. samskonar till. og sú, sem hjer liggur fyrir. Málið var flutt þar af sýslunefndarmanni Grímseyinga og samkvæmt ósk þeirra. Síðan var það samþ. með öllum atkv. fundarmanna.

Það er kunnug afstaða þessa hrepps; henni þarf ekki að lýsa. Menn vita, hversu erfitt þar er um allar samgöngur og þá sjerstaklega um þau sambönd, sem mönnum eru ekki síður nauðsynleg en flutningar, og það eru símasamböndin. Það líða svo vikur og mánuðir, að eyjarbúar hafa ekkert samneyti við aðra landsbúa, engar ferðir á milli, engin viðskifti og engar fregnir komast þangað eða þaðan. Þetta má ekki með nokkru móti lengur þolast, að nær 100 manns sje um lengri tíma útilokað frá öllu andlegu samlífi við land sitt og umheiminn; það er því í fyllsta máta eðlilegt, að Grímseyingar beri fram óskir um, að til þeirra verði litið að þessu leyti.

Jeg hefi minst á þetta mál við landssímastjórann, og tók hann því mjög vel. Hann hafði hugsað sjer, að þegar loftskeytastöð yrði bygð á Norðurlandi, þá kæmi þessi jöfnum höndum. Yrði fyrst sett stöð á Reykjarfirði, er landssímastjórinn gerði ráð fyrir, þá þyrfti Grímseyjarstöðin ekki að kosta nema 5–6 þús. kr. Henni væri þá að eins ætlað að ná til Reykjarfjarðarstöðvarinnar, en ætti að draga alla leið til Reykjavíkur, þá yrði byggingarkostnaðurinn um 20 þúsund krónur. Ef þingið vildi nú taka þessu máli vel, og þess vænti jeg fastlega, þá gæti stöðin komist á nú á næsta fjárhagstímabili. Og enginn efi á því, að hún mundi verða til mjög mikils gagns fyrir skip, ekki einasta í nánd við Grímsey, heldur og alla leið norður og austur fyrir Langanes, þar sem Reykjarfjarðarstöðin næði alls ekki til. Það verða þannig fleiri en eyjarbúar, sem njóta góðs af þessari ráðstöfun. Þetta yrði sjáanlega til mjög mikilla og nauðsynlegra þæginda fyrir siglingar fyrir Norðurlandi, og til mikilsvarðandi leiðbeininga um fiski- og síldargöngur, og jafnvel um ísrek í hafinu. —

Það hefir líka legið í loftinu, og kemst eflaust til framkvæmda áður? en langt um líður, að hjer verði settar á stofn veðurathugunarstöðvar. Býst jeg þá við, að Grímseyjarstöðin verði ekki sú síðasta; það bendir í það minsta alt á það, að nauðsynlegt sje að hafa þar veðurathugunarstöð, góða og með fljótri afgreiðslu.

Hjer er því margt, sem mælir með; hagræðið er fyrir fleiri en eyjarbúa, það er fyrir alla landsmenn, en þó einkum fyrir þá, er sigla fyrir Norðurlandi, og þá, er útveg stunda.

Þótt eyjarbúar sjeu að eins um 100 að tölu, má ætla, að þeir eigi ekki síður skilið velvild og samúð þingsins þegar þess er gætt, hve afstaða þeirra er afarerfið um allar samgöngur, og hve einangraðir þeir eru frá andlegu samneyti við aðra landsmenn. Í ísaárum líða svo mánuðir, og jafnvel heil missiri, að þeir vita ekki neitt um það, hvað á landi gerist, og engar fregnir berast frá þeim. Þetta eitt út af fyrir sig mælir t. d. eindregið með því, að þessi stöð verði reist sem allra fyrst; annars eru þeir hafðir að olnbogabörnum. Ef menn auk þessa athuga alt það hagræði annað, sem af stöðinni getur leitt, þá skil jeg ekki, að menn geti lagst á móti tillögunni.

Óska jeg svo, að málið gangi til síðari umr., og vona, að hv. þm. bregði ekki fæti fyrir það.