08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (3482)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) kom því upp um sig, að honum væri mikið áhugamál að hafa þessar póstgöngur meðfram símanum. En jeg fór ekkert út í það mál, þó að það sje auðvitað hreinn óþarfi að láta póstinn þræða símaleiðina. En hitt kemur mjer kynlega fyrir sjónir, að honum skuli þykja till. okkar nýstárleg, því hversu oft kemur það fyrir, að breytt sje á þingi ráðstöfunum stjórnarinnar. Svo það er ekkert nýstárlegt, en hitt er nýstárlegt, að breyta póstferðum upp úr þurru. Því óþarft tel jeg að gera það af sparnaðarástæðum, sem eru þó þær einu, sem póstmeistari tilfærir í brjefi sínu. Ekki var annað en að láta Strandapóst taka brjefin í Ásgarði. Eins þyrftu póstarnir ekki að verða samferða út í Bitru, og væri það því sparnaður. Dalamenn hefðu heldur ekki á móti því, að vestanpósturinn tæki sinn póst í Dalsmynni. Og yfir höfuð eru þessir smákippir, sem í brjefi póstmeistara er verið að tala um að falla mættu niður, engan veginn mikilvægir. En þar eru póstarnir altaf samferða og er það auðvitað óþarfi, að þeir sjeu saman, ef með því mætti spara.

Þá taldi hv. þm. Stranda. (M. P.), svo og póstmeistari, það eina höfuðástæðuna fyrir því, að póstar væru þarna óþarfir, að skipaferðir væru orðnar svo tíðar. Má vera, að svo sje. En meðan fastar skipaferðir eru ekki fullkomnari en það, að skipin koma tvisvar á ári inn í Hvammsfjörð, er ekki hægt að segja skipaferðir tíðar á innri hluta Breiðafjarðar. Því ekki er mikið að ætla á mótorskip, sem að vísu koma þangað með höppum og glöppum, en án þess, að þeim sje treystandi, nema þá helst ferðum mótorbátsins „Úlfur“. Mun jeg líka leita hófanna hjá samgöngumálanefnd um bættar samgöngur á sjó þarna, því þess er vissulega þörf, og eins þó að landpóstleiðirnar fái að haldast óbreyttar.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) þykir það kynlegt, að fram skuli hafa komið einróma óskir í sýslunni um að hafa þessar ferðir áfram. En jeg get fullvissað hann um, að það er satt, og þeir telja sig alls ekki mega missa vetrarferðirnar.

Svo sagði hv. þm. Stranda. (M. P.), að það væru að eins tveir hreppar sýslunnar, sem með breytingunni mistu tækifærið til að svara brjefum með póstinum um hæl. Jeg veit ekki, hvaða hreppar það eru. En hitt veit jeg, að breytingin hefir áhrif á alla hreppa sýslunnar nema tvo, Fellsströnd og Skarðsströnd.

Annars hefir engin ástæða fyrir breytingunni komið fram, önnur en sú, sem jeg áður gat um, að með henni megi spara eitthvað. Hvorki ræða háttv. þm. Stranda. (M. P.) eða brjef póstmeistara færði hjer önnur rök. En þegar þessi sparnaður nemur nú ekki nema 2–3000 krónum, þá sjá allir, hversu gróðinn yrði mikill fyrir landssjóðinn. En þetta sagði póstmeistari mjer sjálfur. Má vera að 2–3000 kr. á ári sje töluverð upphæð fyrir einstaka menn, en að landsjóðnum geri hún mikið, til eða frá, — get jeg ekki sjeð.