08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í C-deild Alþingistíðinda. (3483)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Hákon Kristófersson:

Jeg skal játa, að það var óheppilegt að bera ekki till. þessa undir álit póstmeistara, því það var ekki nema sjálfsögð kurteisisskylda við hann. En jeg stend á till., sem einn flm. hennar, vegna óska fjölmargra manna úr Barðastrandarsýslu, sjerstaklega úr austurhluta hennar. Og þegar þessi breyting var gerð, kom mönnum þar þetta algerlega á óvart, og urðu margir til að spyrja mig, hvort jeg hefði haft áhrif á þetta mál, og eins hvort jeg vissi til þess, að hv. þm. Stranda. (M. P.) mundi geta átt nokkurn þátt í þessari breytingu. Jeg svaraði, sem satt var, að mjer væri alls ókunnugt um, hvernig á slíkri ráðstöfun stæði, og „forsvaraði“ jafnframt hv. þm. Stranda. (M. P.), því jeg sá þá ekki og sje ekki enn, að í breytingunni felist nokkrir hagsmunir fyrir hann eða hans sýslu, nema þá ef vera kynni, að hún gæti leitt af sjer nýjar vegabætur þar. Annars hafði jeg hugsað mjer upprunalega að tala um málið við póstmeistara, en hafði ekki getað náð í hann áður en till. var borin fram.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að með breytingunni mundi sparast fje fyrir landssjóðinn. En því vil jeg slá föstu, að það sparast ekki á leiðinni frá Bitru til Bíldudals, eftir því, sem samið er nú um þær ferðir. Þetta er ekki svo að skilja, að fyrir þær ferðir muni verða ofborgað. Eins má gera ráð fyrir, að með þessu fyrirkomulagi geti póstinum seinkað að vetrinum. Því leiðin frá Bitru að Króksfjarðarnesi er ill yfirferðar. En áður var þarna aukapóstur, sem tók sig upp í Króksfjarðarnesi eftir komu sunnanpóstsins, og fór norður að Stað í Hrútafirði. Eftir hinni nýju tilhögun á Bíldudalspósturinn að taka sig upp í Gröf í Bitru, og geta ekki kunnugir sjeð, að slíkt geti haft þau áhrif, að hann verði seinfærari vestur en meðan hann átti að eins að fara frá Króksfjarðarnesi.

Eins og jeg hefi þegar tekið fram, þá var það ekki meining mín að ætla póstmeistara nokkrar slæmar hvatir til málsins, og hefði því verið betur viðeigandi, að hann hefði ekki komist brjeflega svo að orði, að till. væri komin fram fyrir dutlunga einstakra manna. Því það verð jeg að taka til mín og samsýslunga minna allra, sem lítum svo á, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða, að fá kipt póstgöngunum þarna í það sama horf og þær voru í áður, enda hygg jeg, að framtíðin muni sýna, að svo muni hentara.