08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í C-deild Alþingistíðinda. (3485)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla ekki að lengja þessar umr. mikið, og ætla heldur ekki að blanda mjer inn í þá deilu, sem hjer hefir risið. Jeg vildi að eins skjóta því fram, að kostnaðaráætlun sú, sem gerð hefir verið um Hesteyrarpóstinn, hlýtur að vera sprottin af ókunnugleika póstmeistara eða heimildarmanna hans. Milli Hesteyrar og Aðalvíkur er að eins 2–3 tíma ferð, og getur ekki komið til nokkurra mála, að það mundi kosta 1000 kr. (M. P.: Biðin). Biðin út af fyrir sig getur aldrei orðið svona dýr.

Það hefir verið talað um, að það sje á móti venju og jafnvel velsæmi að fara með slík mál til þingsins, í stað þess að snúa sjer til beint til póststjórnarinnar, en það er ekki. Kjósendur skora á þm. sína að vekja máls á þessu og reyna að fá einhverja bót eða úrlausn. Ef þm. færu að fást við þetta bak við þingið, reyndu að hafa persónuleg áhrif á póstmeistara, til þess að úr yrði bætt, þá teldu kjósendur sig svikna, ef ekkert ynnist á. Þm. gæti ekkert sýnt til að sanna það, að hann hafði reynt til að hafa áhrif á úrslit málsins, því ekki gæti hann vitnað í einkasamtal sitt við póstmeistara eða annað þess háttar. Eina leiðin, sem honum er opin, er að ganga hreint til verks og snúa sjer til þingsins, enda sje jeg ekkert við það að athuga.

Jeg hefi sjeð brjef frá póstafgreiðslumanninum á Ísafirði, þar sem hann telur tormerki á því, að fá mann til að annast póstferðir til Hesteyrar. Hann leggur til, að aukapóstur gangi frá Aðalvík til Hesteyrar. Þetta bætir að vísu nokkuð úr, þó ekki sje í því full bót. Að öðru leyti verður maður að treysta póstmeistara til að ráða svo úr málinu, að við megi una. Jeg býst við, að hann muni þar taka tillit til vilja þingsins eigi síður en til einstakra manna. Mjer virðist það ekki órjettmætt, þó þingið ráði hjer nokkru um, og jeg skil ekki, að póstmeistari geti þykst við það, þó þessi leið verði valin. Við þm. gátum ekki aðra farið; það var skorað á okkur, okkur var falið að fara með málin, og þá var næst að velja beinustu boðleið.