01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Frsm. (Einar Árnason):

Fyrst verð jeg að gefa nokkra skýringu um nál.; orðalag þess bendir á, að öll nefndin hafi verið sammála um það, en undirskriftin ber það með sjer, að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir verið ósamþykkur niðurstöðu nefndarinnar. Þetta ósamræmi stafar af því, að þegar jeg skrifaði nál„ var mjer ókunnugt um þá afstöðu, sem hv. þm. (B. Sv.) tók í málinu; hann mun ekki hafa verið viðstaddur, þegar nefndin gerði fullnaðarályktun um málið. — Jeg get farið fremur fljótt yfir sögu, því að ekki er ástæða fyrir mig að endurtaka það, sem frá er skýrt í nál„ en í því er skýrt frá öllum helstu atriðum málsins, og leyfi jeg mjer að vísa til þess, sem þar segir. Þó skal jeg bæta því við, að nýlega átti jeg frekara tal við póstmeistara um málið; skýrði hann mjer frá, að hann mundi fús að bæta úr að einhverju leyti, ef Dalasýslubúar óskuðu þess, t. d. þannig, að Búðardalspósturinn væri látinn skreppa til Dalsmynnis, á þeim tíma, sem hann er vanur að bíða í Búðardal, og sækja þangað póst úr flutningi norðanpósts; þetta yrði töluverð fyrirgreiðsla, og á þennan hátt myndu Dalamenn fá póstbrjefin nokkru fyr en ella. Þá taldi hann einnig mega bæta póstgöngurnar með því, að póstur yrði látinn ganga milli Stórholts og Kleifa; er sú vegalengd 15 kílómetrar.

Annars taldi póstmeistari breytinguna ekki hafa mikil áhrif á póstferðirnar um þetta svæði. Aðallega væru þau þessi, að menn af sumum bæjum ættu erfitt með að svara brjefum með sama pósti, eða gætu það ekki; en svo er og víða annarsstaðar um landið, og því ekki næg ástæða til að breyta um að nýju fyrir þá sök, einkum þar sem póstflutningur er að jafnaði fremur lítill um þessar slóðir.

Vænti jeg nú, að hv. þm. Dala. (B. J.) geti fyrir hönd kjósenda sinna sætt sig við þær breytingar, sem póstmeistari talaði um, og láti sjer nægja þær umbætur, sem þær eiga að gera.

Þá kem jeg að öðrum lið till., um að pósturinn frá Ísafirði til Hesteyrar verði í hverri ferð látinn bíða eftir Aðalvíkurpóstinum. Þetta telur póstmeistari erfitt að framkvæma; en hægt sje það þó með miklu fjárframlagi. Jeg hefi í höndum brjef frá póstafgreiðslumanninum á Ísafirði, frá 31. júlí 1919, um þetta mál. Þar segir svo:

„Hjer var engan mann hægt að fá um síðustu áramót til að taka að sjer ferðirnar til Hesteyrar með þeirri kvöð, að bíða þar meðan aukapóstur færi til Aðalvíkur, nema gegn afargjaldi. Hjeðan fást nú engir til að fara ferðirnar milli Ísafjarðar og Hesteyrar nema á vjelbátum, sem kosta um 100 kr. báðar leiðir, án þess þó að bíða á Hesteyri meðan sent sje til Aðalvíkur. Sá, sem nú hefir tekið að sjer póstferðirnar milli Ísafjarðar og Hesteyrar, á hjer ekki heima, og var að eins fáanlegur til að annast umræddar ferðir með því skilyrði, að þurfa ekki að bíða á Hesteyri meðan sent væri til Aðalvíkur, eins og áður segir.

Af framansögðu var umrædd breyting óumflýjanleg, og sje jeg ekki annað ráð betra til að bæta úr þessari umkvörtun Aðalvíkinga en að aukapóstur sje látinn fara frá Látrum um Sæból og Stað í Aðalvík til Hesteyrar svo tímanlega, að hann mæti þar aukapóstinum frá Ísafirði áður en hann snýr aftur til Ísafjarðar, og legg jeg það til.“

Með þessari till., sem jeg nefndi síðast, telur póstmeistarinn á Ísafirði töluvert bætt úr samgönguþörf Aðalvíkinga.

Að öðru leyti tel jeg það miður ráðlegt fyrir þingið að blanda sjer inn í málið að svo komnu, heldur muni rjettast að bíða átekta og sjá, hvernig þetta fyrirkomulag reynist, því að altaf er tími til stefnu að breyta því, ef það þykir ekki viðunandi. Leggur því meiri hl. til, að málinu sje vísað til stjórnarinnar.