01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í C-deild Alþingistíðinda. (3491)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Einar Jónsson:

Mjer kemur það undarlega fyrir, að hjer skuli tekið til umr. mál, sem ekki stendur á dagskrá þessa dags. Það mun að vísu vera rjett, að hæstv. forseti hafi lýst því yfir í gær, að hann mundi taka til umr. í dag þau mál, sem ekki urðu útrædd í gær. En hingað til hefir ekki verið kveinkað sjer við að leggja út í annan eins þingkostnað eins og að prenta fullkomna dagskrá.

Jeg hygg annars, að hjer sje ekki stór þörf á ferðum, með að vera að tefja þingið með því, að vera að rekast í jafnlítilsverðum breytingum um póstferðir á Vestfjörðum og hjer um ræðir, og vilja innleiða nýjar reglur um þær. Og ekki ætla jeg að fara að halda neinar ræður um ekki merkilegra mál en þetta er, heldur láta mjer nægja nú, sem oftast endranær, að láta meiningu mína í ljós með atkv. mínu.