01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði um daginn sýnt fram á, að breyting þessi skemdi samgöngur í Dalasýslu. Þá var auðvitað ekki reiknað með þessum nýja aukapósti. Jeg sagði, að menn þar hefðu lagt mikla áherslu á að hafa póstfylgd yfir Brekkurnar að vetrarlagi. Þetta er því veruleg skemd á samgöngunum, og það gæti orðið dýrt, ef mönnum hlektist á og þeir yrðu úti á þessum fjallvegi. Það er auðvitað, að úr þessu verður ráðið, ef aukapósturinn fer sömu leiðina í hverri ferð, en það er skemd eigi að síður.

Það er altítt, að menn sendi hesta með póstinum, og er mönnum þá ekki sama, þótt þeir fái hestana mörgum dögum síðar en vera þarf. Þetta er að þessu leyti leyti slæmt fyrir Dalasýslu. Og hví er verið að skemma fyrir þeirri sýslu, án þess að bæta fyrir annari? Það er engin bót fyrir Strandasýslu, þótt pósturinn heiti aðalpóstur og fari þá sömu leið, og engu fleiri ferðir en aukapóstur fór áður. Það er alveg sama, hvað pósturinn kallast. Jeg hefi ekkert á móti því, að Strandapósturinn kallist „háyfirpóstur Strandamanna“ en Dalapósturinn „litli pósturinn í Dölunum“. — Þeir hirða ekki um nafnbætur þar í Dölum.

Jeg gleymdi að þakka háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) vingjarnleg orð hans um þetta mál. Hann sagðist, sem rjett er, vera á móti því, að breyta þannig til í einum hluta landsins, ef ekki væri breytt annarsstaðar, þar sem þess væri ekki síður þörf. Það, sem till. mótmælir, er að breyta þannig samgöngum einum í óhag, en engum öðrum að gagni. (M. P.: Mjer skildist hv. 2. þm. Rang. (E. J.) vera á móti till.).