18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í C-deild Alþingistíðinda. (3512)

36. mál, útflutningsgjald af síld

Matthías Ólafsson:

Jeg vil ekki láta þetta frv. fara svo úr deildinni, að jeg geri ekki grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Jeg var einn þeirra, sem greiddu atkv. móti frv. við síðustu umr. og mun gera eins við þessa umr., og vil jeg gera grein fyrir, hvers vegna jeg geri það.

Það er ekki af því, að jeg sjái ekki, að tekjur vanti handa landssjóði. En mjer finst frv. þetta mjög óhyggilegt og óheppilegt. Ef toll á að leggja á útflutta síld, þá ætti að leggja á útflutning þessa árs. Nú þykjast menn hafa vissu fyrir því, að í ár muni verða sæmilegt eða jafnvel mjög hátt verð á síld. En enginn veit með vissu, hvort svo verður, er þessi lög koma til framkvæmda. Jeg tel það því einmitt mjög misráðið að leggja ekki á framleiðsluna í ár. Það gæti vel svo farið næsta ár, að sá litli hagur, sem þá yrði af síldarsölu, færi allur í tollinn.

Jeg tala nú ekki um þá aðferð, að bera fram tvö frv. um aukinn toll á einum og sama atvinnuvegi. En það ætti ráðuneytið að vita, að síld er nú í mjög háu verði, en getur fallið þegar minst varir. Það hefir því rent alveg blint í sjóinn, er það ber fram þessar vanhugsuðu till. Það veit ekkert, hvað verður næsta ár. Það hefir stundum verið svo um síldarútveginn, að enginn gróði hefir af honum verið, og því ekki verið hægt að halda úti. En jeg býst við því, að tekjur landssjóðs mundu rýrna ekki lítið, ef síldarútvegurinn mishepnaðist. Ef frv. á að ganga fram, þá er það hyggilegt að bera fram brtt., svo að tollur þessi bætist ekki við krónutollinn á þessari framleiðslu.

Jeg veit ekki, hvernig ber að skilja það hjá hv. frsm. (S. S.), að honum liggur í ljettu rúmi, hvort brtt. nær fram að ganga, nema ef honum er sama, þótt bæði verði lagður 4 kr. og 1 kr. tollur á síldartunnuna. Og honum væri víst ósárt um það, eftir því, sem jeg þekki hann. En það hlýtur maðurinn að vita, enda þótt hann sje býsna ófróður í þessum málum, að ársframleiðslan flyst oft ekki út fyr en eftir nýár.