21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í C-deild Alþingistíðinda. (3522)

36. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Kristjánsson:

Jeg veit ekki, hvaðan kaldi gusturinn, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) varð var við, er kominn, en hann stafar ekki frá mjer, því að jeg þóttist taka fullliðlega í málaleitun hans. Jeg vildi ekki spilla málinu, heldur koma því í sem best horf, svo þetta hlýtur að vera tómur misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra (S. E.).

Jeg held því fram, enn sem fyr, að aðferðin sje ekki rjett. Annaðhvort verður endurgreiðsla á tollinum að eiga sjer stað, þegar illa gengur, eða útflutningsgjaldið verður að ákveðast árlega á hverju þingi, þegar menn sjá, hvernig aflabrögðin eru, en það er algerlega rangt að fastákveða tollinn, 4 krónur á tunnu, fyrir næstu ár, því að þá gæti svo farið, að enginn sæi sjer fært að gera út. En þar sem gert er ráð fyrir, að þing verði haldið á hverju ári, virðist vera hægt um hönd að ákveða tollinn fyrir hverf ár í senn. Og útvegsmenn munu bera það traust til þingsins, að það muni sníða þeim stakk eftir vexti, svo engin hætta er á, að þeir drægju úr útgerðinni af ótta við of þungar kvaðir.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vildi, að málinu væri sem mest hraðað, þá er jeg algerlega mótfallinn því og tel ekki rjett að fara sjer óðslega í þessu máli. Mjer virðist ekkert liggja á að samþykkja frv. fyr en liður fram á þingtímann.