21.08.1919
Efri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

7. mál, landamerki o. fl.

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert á móti lýsingarorðinu „ábyggilegur“, en mjer fanst það, eins og mörg lýsingarorð oft eru, harla lítils virði, og finst hið sama felast í orðinu vitneskja; en það dregur úr, þegar því er bætt við: „enda telur hann það máli skifta“. Það getur verið, að hann líti svo á af eintómum ókunnugleika á staðháttum, eða öðrum óheppilegum ástæðum, að þrætuatriðið „skifti litlu máli“, og leiði það því hjá sjer. Dregur þá þetta hæglega til framhaldandi rjettaróvissu, sem þetta frv. á einmitt að fyrirbyggja.

Hv. frsm. (M. T.) leit svo á, að greinin gæti leitt til freistinga með óþarfa ferðalög og málsýfingar, en brtt. getur ekki síður leitt til þess, að þörf mál sjeu svæfð og hummuð fram af sjer, og það tel jeg illa farið. Því tel jeg lögin óframkvæmanlegri og þýðingarminni, eins og jeg hefi nú sýnt fram á, ef brtt. verður samþ.