08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vil að eins gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Í fyrsta lagi vil jeg láta þess getið, að hrossin hafa ekki verið seld neinu húsmannafjelagi í Danmörk. Það verður því augljóst, að þótt þau hefðu myndað með sjer hring, þá hefir sá hringur alls ekki komist hjer að.

Í öðru lagi verða hrossin fyrir þessar aðgerðir stjórnarinnar miklu vandaðri vara og hæfari til að keppa á markaðinum.

Í þriðja lagi er enn þá frjáls sala til Englands á lakari hrossum en reglugerðin tilnefnir, og í fjórða lagi get jeg upplýst, að áður en einkasala stjórnarinnar var ákveðin kom fram áskorun frá sýslunefnd Skagafjarðarsýslu þess efnis, að stjórnin tæki í sínar hendur alla sölu á hrossum.

Jeg hefi enn fremur gert fyrirspurnir um þetta víðar, og ekki fengið neinar umkvartanir.