08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki að þreyta umræður um þetta mál, en þess get jeg látið getið, að varla var nokkur maður í allri Dalasýslu, sem gat látið sjer þetta lynda. Jeg hefi meira að segja fengið áskorun um það á fundum þar vestra, að koma fram með fyrirspurn um það til stjórnarinnar, hvers vegna þurft hefði að bjóða út íslensk hross löngu áður en markaðurinn hófst, og hvers vegna gengið hefði verið að boðum einstaks strámanns, sem býður miklu lægra fyrir hvert hross heldur en boðið var í fyrra.

Meðan þetta upplýsist ekki munu menn vera óánægðir, en ef það kemur upp úr kafinu, að hið íslenska ríki hafi verið í voða, nema þetta hafi verið gert, þá munu Dalamenn láta sjer vel líka, þó þeir tapi 100–200 kr. á hverju hrossi.

Jeg lýsi því hjer með yfir, að síðar mun jeg koma fram með fyrirspurn um þetta mál.