08.07.1919
Efri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í C-deild Alþingistíðinda. (3583)

15. mál, einkaleyfi

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Hjer á landi eru engin lög til um einkaleyfi. Hingað til hafa einkaleyfisbeiðnir verið afgreiddar af Alþingi. En nú, þegar verkleg menning og áhugi fyrir henni fer vaxandi í landinu, vex að sama skapi þörfin á, að hægt sje að fá einkaleyfi án mikillar tafar eða örðugleika. Frv. það, sem hjer er flutt, gengur í þá átt, að hvetja hugvitsmenn til að leita þess hagnaðar og heiðurs, sem þeim ber að rjettu. Frv. er sniðið eftir samskonar lögum á Norðurlöndum. Jeg legg til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.